Menntamál.

(Mál nr. 6431/2011)

Hinn 11. maí 2011 kvartaði A yfir áliti mennta- og menningarmálaráðuneytisins á lögmæti tillagna Reykjavíkurborgar um sameiningu leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila sem koma fram í skýrslu starfshóps um greiningu tækifæra til samrekstrar og/eða sameiningar leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila. A kvartaði jafnframt yfir því að ráðuneytið hefði ekki svarað bréfi hennar, dags. 3. apríl 2011.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á kvörtuninni með bréfi, dags. 8. nóvember 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. og a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum mennta- og menningarmálaráðuneytisins til umboðsmanns, dags. 5. október 2011, kom fram að erindi A hefði nú verið svarað. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna þess kvörtunaratriðis. Þar sem fyrir lá að stjórnsýslukæra A á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 var til meðferðar í innanríkisráðuneytinu taldi umboðsmaður sér ekki unnt að taka kvörtunina, að því leyti sem hún sneri að tillögum Reykjavíkurborgar, til athugunar að svo stöddu þar sem niðurstaða innanríkisráðuneytisins kynni að hafa þýðingu fyrir athugun og úrlausn málsins. Umboðsmaður ákvað því að ljúka málinu en tók fram að A gæti leitað til sín að nýju þegar niðurstaða innanríkisráðuneytisins lægi fyrir teldi hún tilefni til þess.