Opinberir starfsmenn. Ráðning í opinber störf.

(Mál nr. 6198/2010)

A kvartaði yfir skipun mennta- og menningarmálaráðherra í átta embætti skólameistara í nánar tilgreindum framhaldsskólum. Fyrir lá að ákvarðanir í fimm þessara mála voru teknar utan ársfrests 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, en hin þrjú málin voru tekin til nánari athugunar.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 30. nóvember 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. og a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Umboðsmaður taldi sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við val ráðuneytisins á þeim sjónarmiðum sem komu fram í auglýsingum á embættum skólameistara við framhaldsskólana X og Y.

Umboðsmaður taldi ekki tilefni til að gera athugasemdir við það fyrirkomulag sem ráðuneytið viðhafði við mat á umsækjendum um embætti skólameistara við framhaldsskólann X. Enn fremur taldi hann ekki tilefni til að gera athugasemdir við þau sjónarmið sem matsaðilar lögðu til grundvallar mati sínu á umsækjendum með tilliti til þeirra krafna sem koma fram í lögum um starf framhaldsskóla og skólameistara þeirra og í auglýsingu um embættið. Umboðsmaður taldi sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við það mat ráðuneytisins að telja að starfsreynsla umsækjandans sem hlaut skipunina nýttist vel til að gegna embættinu, en hann hafði starfað um árabil við skólann og hafði gegnt starfi framhaldsskólakennara, félagsmálafulltrúa, áfangastjóra og aðstoðarskólameistara, og benti á að viðbótarmenntun í stjórnun væri ekki forstakslaust skilyrði til að gegna embætti skólameistara samkvæmt 14. gr. laga nr. 87/2008, um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, þar sem kennslureynsla á framhaldsskólastigi gæti komið í staðinn fyrir slíka menntun. Enn fremur bæri að líta til þess að ákvörðun um skipunina virtist hafa byggst á fleiri þáttum en menntun og starfsreynslu sem kynnu á endanum að hafa fengið aukið vægi við heildarmat á umsækjendum. Í ljósi þess hve stjórnun er stór hluti af starfi skólameistara taldi umboðsmaður auk þess ekki tilefni til að gera athugasemdir við að litið hefði verið til persónulegra eiginleika á borð við leiðtoga- og samskiptafærni. Það varð niðurstaða umboðsmanns að hann hefði ekki forsendur til þess að gera athugasemdir við efnislegt mat ráðherra og samanburð á hæfni A og umsækjandans sem hlaut embættið við X.

Umboðsmaður fékk ekki annað ráðið en að umsækjandinn sem hlaut skipun í embætti skólameistara við framhaldsskólann Y hefði uppfyllt skilyrði 14. gr. laga nr. 87/2008, þar sem fram kom að umsækjandi skyldi hafa starfsheitið framhaldsskólakennari og viðbótarmenntun í stjórnun eða kennslureynslu á framhaldsskólastigi. Umboðsmaður taldi sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við það mat ráðuneytisins að telja að starfsreynsla umsækjandans sem hlaut skipunina nýttist vel til að gegna embættinu, en hann hafði starfað um árabil við Y og gegn starfi kennslustjóra, aðstoðarskólameistara og verið settur skólameistari og staðgengill hans í skólanum. Umboðsmaður benti á að viðbótarmenntun í stjórnun væri ekki forstakslaust skilyrði til að gegna embætti skólameistara samkvæmt 14. gr. laga nr. 87/2008, þar sem kennslureynsla á framhaldsskólastigi gæti komið í staðinn fyrir slíka menntun. Enn fremur bæri að líta til þess að að ákvörðun um skipunina virtist hafa byggst á fleiri þáttum en menntun og starfsreynslu sem kynnu á endanum að hafa fengið aukið vægi við heildarmat á umsækjendum. Í ljósi þess hve stjórnun er stór hluti af starfi skólameistara taldi umboðsmaður auk þess ekki tilefni til að gera athugasemdir við að litið hefði verið til persónulegra eiginleika á borð við leiðtoga- og samskiptafærni. Það varð niðurstaða umboðsmanns að hann hefði ekki forsendur til þess að gera athugasemdir við efnislegt mat ráðherra og samanburð á hæfni A og umsækjandans sem hlaut embættið við Y.

Af skýringum mennta- og menningarmálaráðuneytisins til umboðsmanns vegna málsatvika í tengslum við umsókn hans um embætti skólameistara við framhaldsskólann X var leitt í ljós að þau atvik hefðu orðið fyrir utan þann ársfrest sem mælt væri fyrir um í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Því brast lagaskilyrði fyrir frekari athugun á þeim hluta kvörtunar A.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu en ákvað þó að rita mennta- og menningarmálaráðuneytinu bréf vegna málsins, máls nr. 6186/2010, sem varðaði kvörtun manns sem hafði einnig verið á meðal umsækjenda um embætti skólameistara framhaldsskólans X, og svara ráðuneytisins við fyrirspurn um aðkomu skólanefnda að skipunum í embætti skólameistara, en fyrir lá að í málum nr. 6186/2010 og 6198/2010 var sú aðkoma með nokkuð ólíkum hætti. T.d. tók skólanefndin framhaldsskólans Y viðtöl og aflaði umsagna en mat skólanefndar X var eingöngu á grundvelli umsóknargagna. Í bréfinu vakti umboðsmaður athygli ráðuneytisins á tilteknum atriðum í því sambandi í því skyni að metið yrði hvort tilefni væri til að veita skólanefndunum frekari leiðbeiningar. Jafnframt gerði hann tilteknar athugasemdir við stjórnsýslu ráðuneytisins í málum nr. 6186/2010 og 6198/2010.

Umboðsmaður lýsti því fyrst hvaða skilyrðum umsögn skólanefndar um umsækjendur um embætti skólameistara þarf að fullnægja um undirbúning og efni og benti m.a. á að umsögn skólanefndar yrði að uppfylla lágmarkskröfur um rökstuðning. Umboðsmaður taldi líka réttara að leiðbeiningar ráðuneytisins til skólanefnda tækju mið af því að í lögum væri ekki lengur gert ráð fyrir því að skólanefnd gerði tillögum um skipun í embætti skólameistara heldur veitti hún nú umsögn um umsækjendur. Þá taldi umboðsmaður eðlilegt að ráðuneyti nýtti stjórnunarheimildir sínar til að mæla fyrir um ákveðið verklag skólanefnda við að veita umsagnirnar, m.a. um það á hvaða gögnum og upplýsingum umsögn skyldi byggjast á, að því gættu að nefndin ætti möguleika á því að fá upplýsingar sem sérstaklega kynni að vera þörf á vegna þeirra sjónarmiða sem hún kysi að byggja umsögn sína á. Eðlilegt kynni að vera að öflun slíkra viðbótarupplýsinga ætti sér stað með atbeina ráðuneytisins og þá eftir að skólanefnd hefði sett fram beiðni um slíkt. Skólanefndum þyrfti að leiðbeina um skráningu upplýsinga til samræmis við reglu 23. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, þ.e. ef upplýsingar hafa verulega þýðingu fyrir úrlausn máls og er ekki að finna í öðrum gögnum þess, með tilliti til síðari meðferðar ráðuneytisins á málinu, svo sem vegna hugsanlegs andmælaréttar samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga.

Umboðsmaður taldi að mennta- og menningarmálaráðuneytið hefði borið í rökstuðningi til málsaðila að gera betur grein fyrir þeim sjónarmiðum sem lögð voru til grundvallar ákvörðunum um skipun í embætti skólameistara við framhaldsskólana X og Y og fram komu í auglýsingu embættanna eða voru að öðru leyti lögð til grundvallar, sbr. 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga. Þá taldi umboðsmaður ég að ráðuneytinu hefði borið að gera nánar grein fyrir því hvernig þeir umsækjendur sem skipaðir voru féllu að þeim sjónarmiðum, sbr. 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga.