Opinberir starfsmenn. Ráðning í opinber störf.

(Mál nr. 6425/2011)

A kvartaði yfir ákvörðun Umferðarstofu um ráðningu í starf lögfræðings, en hann var á meðal umsækjenda um starfið. A taldi að sá sem hlaut ráðninguna hefði ekki uppfyllt skilyrði auglýsingar starfsins um meistarapróf í lögfræði þegar hann sótti um.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 7. nóvember 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum Umferðarstofu kom fram að sá sem hlaut ráðninguna hefði þegar lokið skrifum á meistararitgerð sinni þegar ákvörðun um ráðninguna var tekin, að grunnforsenda ráðningarinnar hefði verið að hann myndi útskrifast og að ákveðið hefði verið að hann myndi ekki hefja störf fyrr en eftir útskrift. M.a. í ljósi þess en einnig rökstuðnings Umferðarstofu fyrir ákvörðuninni, lýsingu á starfinu og ráðningarsamningsins sem gerður var taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtun A.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu en ákvað þó að rita forstjóra Umferðarstofu bréf þar sem hann benti á að í ljósi þeirrar þróunar sem orðið hefði á laganámi og þeirra skýringa Umferðarstofu að stofnunin hefði ætlað sér að ráða lögfræðing sem lokið hefði grunnámi í lögfræði og meistaranámi í sömu námsgrein hefði borið að taka fram í starfsauglýsingu að grunnnám í lögfræði væri skilyrði ásamt meistaraprófi í lögfræði eða eftir atvikum embættisprófi, sbr. 7. tölul. 4. gr. reglna nr. 464/1996, um auglýsingar á lausum stöfum, og sjónarmið um vandaða stjórnsýsluhætti. Jafnframt hefði átt að taka fram í auglýsingunni hvenær umsækjandi sem ráðinn yrði skyldi hefja störf, sbr. 10. tölul. 4. gr. reglna nr. 464/1996. Þar sem skýringum Umferðarstofu til umboðsmanns fylgdu einungis gögn úr viðtali við þann umsækjanda sem ráðinn var í starfið og ekki lá fyrir hvort upplýsingar úr viðtölum við aðra umsækjendur hefðu verið skráðar eða lægju fyrir innan stofnunarinnar minnti umboðsmaður einnig á mikilvægi þess að skrá upplýsingar sem koma fram í starfsviðtölum í samræmi við 23. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 og vandaða stjórnsýsluhætti. Að lokum gerði umboðsmaður athugasemdir við að Umferðarstofa hefði ekki gert A grein fyrir því hvaða umsækjandi var ráðinn þegar honum var tilkynnt um ráðninguna og að honum hefði ekki verið leiðbeint um heimild til þess að fá ákvörðunina rökstudda, sbr. 20. gr. stjórnsýslulaga.