Opinberir starfsmenn. Starfslok.

(Mál nr. 6699/2011)

A kvartaði yfir því að hafa verið sagt upp störfum hjá sveitarfélagi á meðan hún var í veikindaleyfi auk þess sem hún var ósátt við að sveitarfélagið hefði ekki greitt henni uppsagnarfrest á þeirri forsendu að slíkt þyrfti ekki þegar starf væri lagt niður.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 15. nóvember 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður rétt að A freistaði þess að leita eftir afstöðu innanríkisráðuneytisins til álitaefnisins, sbr. 1. mgr. 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Væri hún enn ósátt eftir að hafa fengið niðurstöðu ráðuneytisins væri henni heimilt að leita til sín að nýju. Umboðsmaður vakti þó athygli A á að samkvæmt 2. mgr. 109. gr., sbr. 3. mgr. 111. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sem tækju gildi 1. janúar 2012, hefði ráðherra ekki eftirlit með ákvörðunum sveitarfélaga í starfsmannamálum nema þegar um væri að ræða ákvörðun sveitarfélags um uppsögn starfsmanns, enda ætti hún rætur að rekja til brota hans í starfi, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi, til athafna í starfi eða utan þess sem þættu ósamrýmanlegar starfinu eða til annarra sambærilegra ástæðna. Valdsvið ráðuneytisins kynni því að verða annað ef A beindi erindi sínu til þess eftir gildistöku nýrra sveitarstjórnarlaga.