Persónuréttindi. Þóknun lögráðamanns.

(Mál nr. 6609/2011)

A kvartaði yfir því að ekki hefði verið fallist á beiðni hennar um að þóknun og útlagður kostnaður skipaðs lögráðamanns sonar hennar, B, yrði greiddur úr ríkissjóði á grundvelli 4. málsl. 1. mgr. 62. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 28. nóvember 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum innanríkisráðuneytisins til umboðsmanns vegna málsins kom m.a. fram að við nánari athugun málsins í ráðuneytinu hefði komið í ljós að ekki lægi fyrir formleg ákvörðun sýslumannsins í málinu og að rétt hefði verið að óska eftir formlegum skýringum og þá framsenda málið til sýslumanns hefði engin ákvörðun verið tekin, sbr. 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 62. gr. laga nr. 71/1997. Einnig kom fram að ráðuneytið myndi taka mál A til nýrrar meðferðar. Umboðsmaður lauk því athugun sinni á málinu en í ljósi þess að ráðuneytið hafði ekki enn tilkynnt A sjálfri um að málið yrði tekið til nýrrar meðferðar tók hann fram að hún gæti leitað til sín á ný hefði slík tilkynning ekki borist henni um miðjan desembermánuð.