Samgöngumál. Flugmál.

(Mál nr. 6692/2011)

A kvartaði yfir því að Flugstoðir ohf. hefðu víkið honum úr námi í flugumferðarstjórn. A var enn fremur ósáttur við að hafa ekki fengið rökstuðning fyrir ákvörðuninni og aðgang að gögnum málsins. Þá beindist kvörtunin að því að Flugmálastjórn Íslands hefði hafnað A um álitsgerð eða umsögn vegna ákvörðunarinnar.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 28. nóvember 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður benti á að Flugmálastjórn Íslands hefði leiðbeint A um að ákvörðun hennar væri kæranleg til innanríkisráðuneytisins en að ekki yrði séð að kæruheimildin hefði verið nýtt. Í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður rétt að benda A á að freista þess að senda innanríkisráðuneytinu kæru vegna synjunar Flugmálastjórnar á beiðni hans, sbr. 10. gr. laga nr. 100/2006, um Flugmálastjórn Íslands, þrátt fyrir að formlegur þriggja mánaða kærufrestur samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 væri liðinn. Umboðsmaður tók þó fram að í ábendingunni fælist ekki afstaða til þess hvort A ætti rétt á lögum að ráðuneytið tæki kæruna til efnislegrar meðferðar eða til málsins að öðru leyti.