Sakarkostnaður.

(Mál nr. 6373/2011)

A kvartaði yfir því að menn fengju ekki upplýsingar um að sakarkostnaður kynni að falla á þá vegna lögmannsaðstoðar sem þeir þiggja og viðkomandi gæti því þurft að bera kostnað af skipuðum eða tilnefndum verjanda. A hafði þegið lögmannsaðstoð og kvaðst ekki mundu hafa gert það ef hann hefði vitað að hann þyrfti að bera kostnað vegna þess.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 8. nóvember 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í bréfi innanríkisráðuneytisins til umboðsmanns vegna málsins kom m.a. fram að ráðuneytið hygðist breyta framkvæmd á þann veg að sakborningar yrðu upplýstir um þær reglur sem gilda um greiðslu sakarkostnaðar. Einnig kom fram að til stæði að endurskoða kynningarblað sem afhent er handteknum einstaklingum til nánari skýringa og leiðbeininga á ýmsum réttindum þeirra og ætlunin væri að nota það kynningarefni hjá öllum öllum lögregluembættum til að gæta samræmis í framkvæmd þessara mála. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að aðhafast frekar út af kvörtun A. Umboðsmaður tók fram að í því sambandi hefði hann í huga að skylda til að greiða lögmannskostnað sem hluta af sakarkostnaði kæmi fram með ótvíræðum hætti í lögum nr. 88/2008, um meðferð sakamála, og að brot á leiðbeiningarskyldu stjórnvalda leiddi ekki til þess að viðkomandi einstaklingur losnaði undan slíkri skyldu.