Stjórnsýsluviðurlög.

(Mál nr. 6534/2011)

Vátryggingamiðlunin A ehf. kvartaði yfir ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að leggja dagsektir á félagið vegna vanskila á endurskoðuðum ársreikningi, ákvörðun stjórnar Fjármálaeftirlitsins um að innheimta álagðar dagsektir og málsmeðferð Fjármálaeftirlitsins í málinu. Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á máli A ehf. þar sem meira en ár var liðið frá því að ákvarðanirnar voru teknar. Umboðsmaður ákvað þó að rita Fjármálaeftirlitinu bréf og óska eftir tilteknum upplýsingum og skýringum til að meta hvort ástæða væri til að hefja frumkvæðisathugun á starfsháttum Fjármálaeftirlitsins í tengslum við rækslu eftirlitshlutverks þess með vátryggingamiðlurum, einkum með tilliti til beitingar dagsekta.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 29. nóvember 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laganna.

Í málinu óskaði umboðsmaður eftir upplýsingum um hvort dagsektir hefðu verið lagðar á vátryggingamiðlara á tilgreindu tímabili, hvaða fjárhæðum sektirnar námu, á hvaða sjónarmiðum eða viðmiðum ákvarðanir um þær byggðust, hvers konar brot hefði verið um að ræða og um fjárhagsstærðir í rekstri viðkomandi aðila. Þessar spurningar voru einkum lagðar fram í því skyni að kanna hvort og þá hvernig Fjármálaeftirlitið hefði gætt samræmis og jafnræðis í stjórnsýsluframkvæmd sinni. Umboðsmaður óskaði einnig eftir upplýsingum um það hvaða sjónarmið byggju að baki því að veita aðila, sem ákvörðun um dagsektir eða févíti beinist að, einungis sjö daga frest til að koma að skriflegum andmælum áður en stjórn Fjármálaeftirlitsins tekur ákvörðun í máli hans, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 397/2010, um beitingu dagsekta og févítis í opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi, og jafnframt afstöðu stofnunarinnar til þess hvort fresturinn væri of stuttur. Í skýringum Fjármálaeftirlitsins kom m.a. fram að afar fátítt væri að vátryggingamiðlarar væru beittir dagsektum. Í ljósi þess og skýringa Fjármálaeftirlitsins að öðru leyti ákvað umboðsmaður að ekki væri tilefni til að hefja frumkvæðisathugun vegna málsins en tók fram að hann myndi eftir því sem tilefni gæfist til fylgjast með starfsháttum stofnunarinnar að því er varðaði ákvarðanir um dagsektir á vátryggingamiðlara.