Hinn 27. september 2011 kvartaði A yfir töfum á afhendingu gagna frá Kópavogsbæ á grundvelli 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.
Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 8. nóvember 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.
Fyrir lá að A lagði fram kæru vegna tafanna hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál 26. ágúst 2010 og að úrskurðarnefndin sendi sveitarfélaginu lokaítrekun 27. september 2011 að því viðlögðu að innanríkisráðuneytinu yrði gert viðvart um málið á grundvelli 102. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Í bréfi úrskurðarnefndarinnar til umboðsmanns vegna málsins kom fram að A hefði nú fengið afhent þau gögn er Kópavogsbær taldi falla undir beiðni hans en jafnframt að A hefði sent Kópavogsbæ bréf, dags. 28. október 2011, þar sem hann lýsti sig ósammála þeirri afstöðu. Þá kom fram að úrskurðarnefndin hefði ritað Kópavogsbæ bréf vegna málsins og myndi í framhaldinu leggja málið í úrskurðarfarveg. Í ljósi þessa taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að fjalla frekar um kvörtunina en tók fram að A gæti leitað til sín á ný teldi hann frekari óeðlilegar tafir verða á málinu.