Svör við erindum. Kvartanir eða kærur til æðri stjórnvalda eða eftirlitsstofnana.

(Mál nr. 6660/2011)

Hinn 17. september 2011 kvartaði A yfir því að stjórnsýslukæra sem hann lagði fram 6. ágúst 2010 vegna beiðni um álagningu dagsekta til að koma á umgengni hans við dóttur sína hefði ekki enn verið afgreidd.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 8. nóvember 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

A hafði áður leitað til umboðsmanns vegna tafa á afgreiðslu málsins í innanríkisráðuneytinu (sjá mál nr. 6561/2011). Þá kvað ráðuneytið fyrirhugað að ljúka afgreiðslu málsins um miðjan september 2011. Í skýringum ráðuneytisins til umboðsmanns kom nú fram að niðurstöðu væri að vænta ekki síðar en 4. nóvember 2011. Hinn 3. nóvember var umboðsmaður upplýstur um niðurstaða lægi fyrir og yrði póstlögð daginn eftir. Umboðsmaður taldi því ekki ástæðu til aðhafast frekar og lauk meðferð sinni á málinu. Hann tók hins vegar fram að A gæti leitað til sín á ný væri hann enn ósáttur að fenginni endanlegri niðurstöðu í málinu. Þá ritaði umboðsmaður innanríkisráðuneytinu bréf þar sem hann kom þeirri afstöðu sinni á framfæri að meðferð málsins hefði ekki verið í samræmi við málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og beindi þeim tilmælum til ráðuneytisins að gæta framvegis betur að henni. Umboðsmaður tók fram að hann hefði sérstaklega í huga eðli málsins.