Svör við erindum. Kvartanir eða kærur til æðri stjórnvalda eða eftirlitsstofnana.

(Mál nr. 6664/2011)

Hinn 26. september 2011 kvartaði A yfir því að hafa ekki borist svar Umhverfisstofnunar við umsókn sem hann lagði fram 12. febrúar 2011 um starfsleyfi til að gerast leiðsögumaður. Hann kvartaði einnig yfir því að hafa ekki borist svar við kæru til umhverfisráðuneytisins, dags. 26. apríl 2011, er laut að málsmeðferð Umhverfisstofnunar.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 3. nóvember 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum umhverfisráðuneytisins til umboðsmanns vegna málsins kom fram Umhverfisstofnun hefði nú sent A bréf og óskað eftir frekari gögnum. Stefnt væri að því að ljúka afgreiðslu málsins á innan við viku frá því að gögnin bærust. Einnig kom fram að gagnaöflun væri lokið í kærumálinu og áætlað væri að úrskurða á allra næstu dögum. Umboðsmaður taldi því ekki ástæðu til að fjalla frekar um kvörtunina en tók fram að ef frekari tafir yrðu á afgreiðslu málanna gæti A leitað til sín að nýju.