Svör við erindum. Kvartanir eða kærur til æðri stjórnvalda eða eftirlitsstofnana.

(Mál nr. 6676/2011)

Hinn 11. október 2011 kvartaði A yfir því að sér hefðu ekki borist svör frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða við kæru sem hún sendi með bréfi, dags. 6. júní 2011, vegna ákvörðunar Vinnumálastofnunar um að skerða atvinnuleysisbætur hennar vegna annarra tekna.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á kvörtuninni með bréfi, dags 8. nóvember 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum úrskurðarnefndarinnar kom fram að erfitt væri að segja til um hvenær kæmi að afgreiðslu máls A en gera mætti ráð fyrir því að það yrði í upphafi árs 2012. Umboðsmaður taldi því ljóst að málsmeðferðartími nefndarinnar á máli A myndi fara talsvert fram yfir tímamark 5. mgr. 12. gr. laga nr. 54/2006, þar sem fram kemur að úrskurðarnefndin skuli leitast við að kveða upp úrskurð innan tveggja mánaða frá því að mál berst. Í tilefni af kvörtun A og vegna þess að umboðsmaður hafði orðið var við það í störfum sínum að nefndinni gengi illa að afgreiða mál innan lögboðinna tímamarka ákvað hann að rita velferðarráðuneytinu bréf og afla upplýsinga um þær aðgerðir sem ráðuneytið hefur gripið til vegna stöðunnar. Af þeim sökum taldi hann ekki tilefni til að fjalla sérstaklega um kvörtun A að sinni og lauk athugun sinni á máli hennar. Hann tók þó fram að ef mál hennar yrði ekki afgreitt á þeim tíma sem fram kæmi í skýringum úrskurðarnefndarinnar gæti hún leitað til sín að nýju.