Svör við erindum. Kvartanir eða kærur til æðri stjórnvalda eða eftirlitsstofnana.

(Mál nr. 6694/2011)

Hinn 24. október 2011 kvartaði A ehf. yfir töfum á afgreiðslu úrskurðarnefndar um upplýsingamál á kærumáli sem félagið lagði fram vegna synjunar byggðasamlags á beiðni um afhendingu gagna og upplýsinga.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni með bréfi, dags. 29. nóvember 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum úrskurðarnefndarinnar, dags. 18. nóvember 2011, kom fram að stefnt væri að því að fjalla um kæruna 25. þess mánaðar. Umboðsmanni bárust síðan upplýsingar um að úrskurður hefði verið kveðinn upp í málinu þann dag. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að fjalla frekar um kvörtunina en tók fram að ef A ehf. teldi sig beitt rangindum með niðurstöðunni gæti félagið leitað til sín með sérstaka kvörtun þar að lútandi. Þá tók umboðsmaður fram að hann hefði til málsmeðferðartíma úrskurðarnefndar um upplýsingamál til almennrar athugunar og myndi hafa upplýsingar sem bárust frá A ehf. í huga við úrlausn á því máli.