Svör við erindum. Umsóknir og ákvörðunartaka.

(Mál nr. 6622/2011)

Hinn 5. september 2011 kvartaði A ehf. yfir því að Samkeppniseftirlitið hefði ekki enn svarað beiðni frá 18. júní 2010 um endurupptöku á ákvörðun í máli félagsins. Kvörtunin laut jafnframt að því að Samkeppniseftirlitið hefði ekki fallist á fyrri beiðni félagsins, dags. 10. nóvember 2008, um endurupptöku málsins og málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins í því sambandi.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á kvörtuninni með bréfi, dags. 4. nóvember 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. og a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður taldi að ákvörðun um að fallast ekki á endurupptökubeiðnina frá 10. nóvember 2008 hefði verið tekin utan við ársfrest í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 og því væru ekki skilyrði að lögum til að fjalla um niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins í því máli eða meðferð þess á málinu.

Í ljósi skýringa Samkeppniseftirlitsins á stöðu síðari málsins með tilliti til rannsóknar þess taldi umboðsmaður ekki heldur ástæðu til að aðhafast frekar að svo stöddu í tilefni af kvörtun yfir töfum á afgreiðslu þess. Hann tók þó fram að A ehf. væri heimilt að leita til sín að nýju yrði frekari óeðlilegur dráttur á afgreiðslu málsins miðað við lýsingu á fyrirhugaðri meðferð þess í bréfi Samkeppniseftirlitsins eða þann afgreiðslutíma sem félaginu kynni að hafa verið tilkynnt um að það mætti vænta. Þá taldi umboðsmaður ekki skilyrði til að aðhafast sérstaklega vegna málsins á grundvelli frumkvæðisheimilda sinna samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/1997, m.a. í ljósi þess að síðari endurupptökubeiðni A ehf. var til meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu en einnig þess að miðað við málastöðu embættisins teldi hann ekki ástæðu til að fjalla um mál að eigin frumkvæði nema í undantekningartilvikum og þá á almennum grundvelli frekar en í málum tiltekinna aðila. Umboðsmaður upplýsti A ehf. þó um að hann hefði fyrir nokkru óskað eftir almennum upplýsingum frá Samkeppniseftirlitinu um málshraða þess.

Þá ákvað umboðsmaður að rita Samkeppniseftirlitinu bréf þar sem hann benti á að rétt væri að veita A ehf. nákvæmari upplýsingar um hvenær ákvörðunar í málinu væri að vænta, hefði það ekki þegar verið gert, og að ef sú áætlun stæðist ekki bæri jafnframt að senda nýja tilkynningu þar sem skýrt væri frá því, upplýst um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar væri að vænta, sbr. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.