Svör við erindum. Umsóknir og ákvörðunartaka.

(Mál nr. 6659/2011)

Hinn 29. september 2011 kvartaði A, ábúandi á ríkisjörð, yfir því að hafa ekki borist svör frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu við beiðni um leyfi til byggingar mannvirkja á jörðinni. Beiðnin var send ráðuneytinu með bréfi, dags. 22. janúar 2011. Erindið var ítrekað 25. febrúar, 22. ágúst og 20. september 2011.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 18. nóvember 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum mennta- og menningarmálaráðuneytisins til umboðsmanns vegna málsins kom m.a. fram að stefnt væri að því að fjalla um erindi A fyrir 1. desember 2011. Í ljósi þeirra skýringa ákvað umboðsmaður að fjalla ekki frekar um kvörtunina en tók fram að yrði málið ekki afgreitt á þeim tíma væri A frjálst að leita til sín að nýju. Umboðsmaður ákvað einnig að rita mennta- og menningarmálaráðuneytinu bréf þar sem hann áréttaði að samkvæmt 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli ákvarðanir í málum teknar svo fljótt sem unnt er og að í 3. mgr. 9. gr. væri kveðið á um að þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast beri að skýra aðila máls frá því. Skuli þá upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar er að vænta. Umboðsmaður taldi að málsmeðferð ráðuneytisins hefði mátt vera í betra samræmi við þá reglu og áréttaði mikilvægi þess að ráðuneytið fylgdi henni í framtíðinni.