Svör við erindum.

(Mál nr. 6543/2011)

Hinn 22. júlí 2011 kvartaði A f.h. ólögráða dóttur sinnar, B, yfir því að bréfi sem hún sendi innanríkisráðuneytinu í nóvember 2010 hefði ekki verið svarað. Bréfið varðaði fjölskylduaðstæður B og beiðni hennar um að fá að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við ráðuneytið vegna mála sem höfðu verið þar til meðferðar og vörðuðu hana persónulega. Í kvörtuninni kom einnig fram að ráðuneytið hefði ekki svarað bréfum A, dags. 11. og 24. janúar 2011, þar sem hann óskaði upplýsinga um hvað liði svörum ráðuneytisins við bréfi B.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 8. nóvember 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum innanríkisráðuneytisins, dags. 2. nóvember 2011, kom fram að svarbréf til B hefði nú verið póstlagt. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna kvörtunar hennar. Í ljósi þess að bréf A til ráðuneytisins lutu að svörum við erindi B taldi umboðsmaður ekki heldur ástæðu til að aðhafast sérstaklega vegna þeirra í tilefni af kvörtun B. Hann benti A þó á að hefði bréfunum ekki verið svarað gæti hann lagt fram sérstaka kvörtun þar að lútandi.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu en ritaði innanríkisráðuneytinu bréf þar sem fram kom að hann teldi afgreiðslu á erindi B ekki hafa verið í samræmi við meginreglu stjórnsýsluréttar um málshraða, sbr. einnig 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og beindi tilmælum til ráðuneytisins um að gæta betur að því, sérstaklega í ljósi eðlis erindisins.