Tolleftirlit.

(Mál nr. 6646/2011)

Hinn 26. september 2011 kvartaði A yfir framgöngu tollvarða við leit í skipsklefa hennar og annað tolleftirlit og að henni hefði aldrei verið tilkynnt um að hún ætti rétt á að kalla til vitni þegar leitað væri hjá henni. Hún kvartaði jafnframt yfir mismunun farmanna sem hún taldi felast í tollalögum nr. 88/2005 með tilliti til réttar til innkaupa og nýtingar á tollfrjálsum varningi og mismunandi meðferð við tollafgreiðslu og nefndi þar sérstaklega að farmenn þyrftu að gera tollgæslu skriflega grein fyrir öllum varningi hvort sem hann væri tollskyldur eða ekki. Þá kvartaði hún yfir því að tollstjóri hefði ekki svarað beiðni hennar um aðgang að upplýsingum um tilvik þegar tollurinn hefur leitað hjá henni.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 8. nóvember 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður rétt að A freistaði að bera umkvartanir sínar yfir framgöngu tollvarða undir fjármálaráðherra, sbr. 2. mgr. 38. gr. tollalaga, en að hún gæti leitað til sín á ný að fenginni afstöðu ráðuneytis hans væri hún ósátt við afgreiðslu þess á málinu.

Hvað varðaði mismunun þá sem A taldi tollalöggjöfina fela í sér þá benti umboðsmaður á að samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 tæki starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis og því væri það almennt ekki í verkahring umboðsmanns að taka afstöðu til þess hver hefði orðið niðurstaða Alþingis um lagasetningu eða hvernig til hefði tekist í þeim efnum. Þá taldi umboðsmaður ekki tilefni til að taka það atriði til athugunar að eigin frumkvæði á grundvelli 5. og 11. gr. laga nr. 85/1997.

Í skýringum tollstjóra til umboðsmanns kom fram að beiðni A um aðgang að gögnum hefði verið afgreitt 2. nóvember 2011 með því að veita henni upplýsingar um þau mál sem væru á skrá hjá embættinu en leitartilvik væru þó eingöngu skráð við haldlagningu varnings. Umboðsmaður taldi því ekki ástæðu til að aðhafast frekar en benti A á að væri hún ósátt við úrlausn tollstjóra gæti hún freistað þess að bera umkvörtunarefnið undir fjármálaráðherra, sbr. 38. gr. tollalaga. Teldi hún sig enn beitta rangindum að fenginni niðurstöðu fjármálaráðuneytisins gæti hún leitað til sín að nýju.