Vegabréf og persónuskilríki.

(Mál nr. 6700/2011)

A kvartaði yfir því að Þjóðskrá Íslands hefði ritað millinafn hans fullum stöfum í nýju vegabréfi hans í stað þess að skammstafa það í samræmi við rithátt þess í þjóðskrá. Í kvörtun A kom fram að þar sem nafnið væri skammstafað í þjóðskrá væri það ritað með þeim hætti í vegabréfsáritunum sem væru honum nauðsynlegar vegna starfs síns og að misræmi milli vegabréfs og áritunar gæti skapað vandkvæði.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 15. nóvember 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður fékk ekki séð af kvörtun A að hann hefði sent Þjóðskrá Íslands erindi vegna málsins líkt og starfsmaður stofnunarinnar hafði bent honum á að gera. Hann benti A því á að gera það og ef hann teldi sig enn rangindum beittan að fenginni úrlausn Þjóðskrár Íslands gæti hann freistað þess að bera málið undir innaríkisráðuneytið, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. tölul. D-liðar 5. gr. forsetaúrskurðar nr. 125/2011, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Ef hann teldi sig enn rangindum beittan að fenginni úrlausn innanríkisráðuneytisins gæti hann leitað til sín að nýju.