Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Aðgangur að gögnum á grundvelli upplýsingalaga.

(Mál nr. 6731/2011)

A kvartaði yfir því upplýsingar sem hann fékk um kaupsamning íslenska ríkisins á bóluefni gegn svínaflensu A/H1N1 hefðu verið ófullnægjandi og að hann teldi vanta frekari gögn um hvaða vörutegund eða heiti á vöru væri að ræða. A hafði verið veittur aðgangur að samningnum með tilteknum útstrikunum með úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 20. desember 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður fékk ekki séð að A hefði lagt fram sérstaka ósk um aðgang að þeim tilteknu gögnum sem hann taldi skorta hjá velferðarráðuneytinu og þá eftir atvikum kært ákvörðun ráðuneytisins til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Umboðsmaður taldi því ekki að svo stöddu skilyrði til þess að fjalla frekar um kvörtunina og lauk umfjöllun sinni um málið. Hann tók hins vegar fram að ef A freistaði þess að leita afstöðu velferðarráðuneytisins og eftir atvikum úrskurðarnefndarinnar og teldi niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar óviðunandi gæti hann leitað til sín að nýju.