Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Aðgangur að gögnum á grundvelli upplýsingalaga.

(Mál nr. 6775/2011)

A kvartaði yfir því að Bændasamtök Íslands hefðu ekki brugðist við beiðni sinni um að fá afhenta ársreikninga og ársskýrslur samtakanna.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 30. desember 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Þar sem engin gögn um samskipti A við Bændasamtök Íslands fylgdu með kvörtun hans til umboðsmanns gat umboðsmaður ekki ráðið hvort beiðnin beindist sérstaklega að stjórnsýsluverkefnum sem samtökin sinna á vegum ríkisins og hún væri þá sett fram á grundvelli upplýsingalaga. Umboðsmaður benti á að þrátt fyrir að samtökin önnuðust ákveðin stjórnsýsluverkefni fyrir hönd ríkisins teldust þau að öðru leyti vera einkaaðili og starfsemi þeirra vegna annarra verkefna en stjórnsýsluverkefna sem ríkið hefði falið þeim félli þar með utan við starfssvið umboðsmanns. Eins og kvörtunin var sett fram fékk umboðsmaður því ekki séð að það félli undir starfssvið sitt að fjalla um afgreiðslu Bændasamtaka Íslands á beiðni A um að fá afhenta ársreikninga og ársskýrslur samtakanna. Umboðsmaður benti A jafnframt á að ef hann teldi beiðnina setta fram á grundvelli upplýsingalaga gæti það mál ekki komið til umfjöllunar hjá sér fyrr en hann hefði borið synjun samtakanna undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

Umboðsmaður benti A hins vegar á að þar sem fram kæmi í í gildandi samningi milli ríkisins og Bændasamtaka Íslands að samtökin skyldu skila ársreikningi til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins kynni A að vera fær sú leið að óska eftir aðgangi að þeim ársreikningum samtakanna sem væru í vörslu ráðuneytisins á grundvelli upplýsingalaga. Ef ráðuneytið synjaði beiðninni ætti hann þess kost að bera synjunina undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu en tók fram að ef A bæri málið undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og úrskurðarnefnd um upplýsingamál og teldi niðurstöðu nefndarinnar óviðunandi væri honum frjálst að leita til sín að nýju.