Atvinnuréttindi og atvinnufrelsi. Viðurkenning á námi og starfsmenntun.

(Mál nr. 6573/2011)

A, sem hafði lokið fimm ára námi í framleiðslu og framreiðslu veitinga, veitinga- og rekstrarstjórn í Belgíu, kvartaði yfir ákvörðun mennta- og menningarmálaráðuneytisins í tilefni af umsókn hans um viðurkenningu á námi og starfsmenntun, en ráðuneytið taldi að menntun hans yrði ekki jafnað til íslensks sveinsprófs í matreiðslu. A taldi ráðuneytið ekki hafa metið nám sitt að verðleikum og að ekki hefði verið litið til allra gagna sem fylgdu umsókninni, auk þess sem að svar ráðuneytisins við umsókninni væri óskýrt.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 19. desember 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður vakti athygli A á að þar sem mál hans varðaði álitaefni á sviði Evrópuréttar og varðaði viðurkenningu á starfsmenntun og hæfi gæti hann nýtt sér svokallað Solvit-kerfi sem væri starfrækt á vettvangi Evrópusambandsins og teldist hluti af stjórnsýslu viðkomandi aðildarríkja sambandsins eða EES-samningsins. Kerfið hefði það að markmiði að leysa vandamál sem koma upp hjá einstaklingum í tengslum við beitingu reglna innri markaðarins. Umboðsmaður ákvað að ljúka afskiptum sínum af málinu en tók fram að ef A ákvæði að leita ekki til Solvit væri honum velkomið að leita til sín að nýju innan hæfilegs tíma. Hann tók jafnframt fram að tæki Solvit málið til meðferðar og úrlausn þess hugnaðist A ekki ætti hann kost á að leita til sín á nýjan leik og þá jafnvel þótt ársfrestur 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 væri liðinn.