Fjármála- og tryggingastarfsemi.

(Mál nr. 6712/2011)

A kvartaði yfir samkomulagi um verklagsreglur um sértæka skuldaaðlögun. A taldi reglurnar eða leiðbeiningar til fjármálafyrirtækja um hvernig skyldi standa að afskrifum einstaklinga og fyrirtækja ekki standast jafnræðisreglu stjórnarskrár.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 5. desember 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í kvörtun A kom ekki fram hvort henni að baki væri ákvörðun stjórnvalds í máli hans og hvort þeirri ákvörðun hefði verið skotið til æðra stjórnvalds og það fellt úrskurð sinn í málinu eða upplýsingar sem gátu varpað ljósi á hvort sú úrlausn væri tæk til meðferðar hjá umboðsmanni. Þá fylgdu engin gögn með kvörtuninni er gátu varpað frekara ljósi á það. Umboðsmaður taldi því að kvörtunin væri ekki þannig úr garði gerð að vera tæk til umfjöllunar og lauk málinu.

Umboðsmaður ritaði A þó bréf þar sem hann leiðbeindi honum um að ef kvörtunin beindist að ákvörðun Íbúðalánasjóðs væri rétt að hann freistaði þess að leita til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, sbr. IX. kafla laga nr. 44/1998. Hann vakti jafnframt athygli A á embætti umboðsmanns skuldara. Þá benti hann á að ef kvörtunin beindist að ákvörðun samningsbundins lífeyrissjóðs væri almennt gert ráð fyrir því að sjóðsfélagar gætu borið ágreiningsefni sín við stjórn lífeyrissjóðs undir sérstakan gerðardóm, sbr. 33. gr. laga nr. 129/1997, en auk þess kynni að vera fært að leita til Fjármálaeftirlitsins, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 129/1997. Ef kvörtunin beindist að tilteknum banka gæti A freistað þess að vekja athygli Fjármálaeftirlitsins á athugasemdum sínum við samkomulagið, sbr. 8. gr. laga nr. 87/1998. Enn fremur gæti hann, þrátt fyrir að eftirlitsnefnd með framkvæmd sértækrar skuldaaðlögunar væri ekki ætlað að fara með mál einstaklinga, freistað þess að vekja athygli nefndarinnar á þeim annmörkum sem hann teldi vera á samkomulaginu. Að lokum benti umboðsmaður á að í 6. gr. laga nr. 107/2009, kæmi fram að ágreining milli kröfuhafa um niðurfærslu skulda fyrirtækis við sértæka skuldaaðlögun mætti skjóta til úrskurðarnefndar um sértæka skuldaaðlögun.

Umboðsmaður tók fram að ef A leitaði til stjórnvalda vegna álitaefnisins og yrði ósáttur við viðbrögð þeirra gæti hann leitað til sín á nýjan leik og hann myndi þá taka afstöðu til þess hvort skilyrði væru til athugunar á málinu.