Fæðingar- og foreldraorlof.

(Mál nr. 6755/2011)

A kvartaði yfir mismun á greiðslum til foreldra í fæðingarorlofi eftir því hvort þau hefðu eignast barn 1. janúar 2009 eða 1. janúar 2010.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 12. desember 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður benti á að úthlutunarreglur úr fæðingarorlofssjóði hefðu breyst við gildistöku laga nr. 120/2009. Umboðsmaður benti jafnframt á að starfssvið umboðsmanns tæki ekki til starfa Alþingis, sbr. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 og því væri það almennt ekki í verkahring umboðsmanns Alþingis að taka afstöðu til þess hvernig til hefði tekist með löggjöf sem Alþingi hefði sett. Þar sem umboðsmaður fékk ekki betur séð en að kvörtunin lyti að þáttum sem löggjafinn hefði með skýrum hætti tekið afstöðu til taldi hann bresta skilyrði til að geta tekið málið til frekari athugunar og lauk umfjöllun sinni um það.