Gjafsókn.

(Mál nr. 6360/2011)

A kvartaði yfir neikvæðri umsögn gjafsóknarnefndar um umsókn hans um gjafsókn til að taka til varna í meiðyrðamáli vegna ummæla hans á bloggsíðu og facebook-síðu og synjunar innanríkisráðuneytisins á umsókninni.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 28. desember 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í umsögn gjafsóknarnefndar kom fram það mat nefndarinnar að málstaður A gæfi ekki nægilegt tilefni til þess að eðlilegt væri að kostnaður af málsvörn hans yrði greiddur af almannafé en til þess þyrftu að vera nokkuð ríkar ástæður. Í umsögninni var einnig vísað til þess að nefndin hefði almennt ekki talið eðlilegt að málarekstur sem skapaðist af munnhöggi á bloggsíðum ætti að greiðast af almannafé. Umboðsmaður taldi sig ekki hafa forsendur til að fullyrða að mat gjafsóknarnefndar hefði verið óforsvaranlegt eða að öðru leyti í ósamræmi við 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, þar sem m.a. kemur fram það skilyrði gjafsóknar að nægilegt tilefni verði að vera til málshöfðunar eða málsvarnar og eðlilegt verði að teljast að öðru leyti að gjafsókn sé kostuð af almannafé. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að taka kvörtunina til frekari meðferðar.