Gjaldeyrismál.

(Mál nr. 6193/2010)

A kvartaði yfir niðurstöðu efnahags- og viðskiptaráðuneytisins í kærumáli vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um að hafna umsóknum A um undanþágu frá reglum nr. 880/2009, um gjaldeyrismál. A kvartaði einnig yfir samskiptum sínum við ráðuneytið í tengslum við erindi sem hann sendi því og ófullnægjandi upplýsingagjöf um farveg sem erindið var lagt í. A gerði jafnframt margháttaðar athugasemdir sem lutu m.a. að ófullnægjandi rökstuðningi og brotum á leiðbeiningar- og málshraðareglu.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 30. desember 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Á meðan á athugun málsins hjá umboðsmanni stóð tók Seðlabankinn nýja ákvörðun í máli A og féllst á undanþágubeiðni hans frá 1. mgr. 5. gr. reglna nr. 370/2010, um gjaldeyrismál, um endurfjárfestingu innan tveggja vikna með tilteknum takmörkunum og skilyrðum. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að taka þann þátt kvörtunar A til nánari athugunar.

Þar sem umboðsmaður fékk ekki séð að reglur nr. 880/2009 hefðu farið út fyrir það svigrúm sem bráðabirgðaákvæði I í lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, veitti til setningar almennra stjórnvaldsfyrirmæla taldi hann að athugasemdir sem A gerði við efni reglna nr. 880/2009, m.a. um að auðveldara væri fyrir aðila með háar erlendar fjármagnstekjur að komast hjá skilaskyldu, að dreifing tekna gæti skipt gríðarlegu máli fyrir aðila þrátt fyrir sambærilegar tekjur og að tekjulitlir aðilar þyrftu að borga meira í kostnað en svaraði tekjum, lytu að fyrirkomulagi sem löggjafarvaldið hefði ákveðið að skyldi gilda á þessu sviði. Umboðsmaður benti í því sambandi á að samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, tæki starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis og því væri það almennt ekki á verksviði umboðsmanns Alþingis að taka afstöðu til þess hvernig til hefði tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett. Í ljósi þess að Alþingi hefði nú lögfest reglur sem væru í meginatriðum sambærilegar reglum nr. 880/2009, sbr. lög nr. 127/2011, að í málinu reyndi ekki á hvort borgari hefði verið beittur stjórnsýsluviðurlögum eða hvort reglurnar væru viðhlítandi refsiheimild í ljósi 69. gr. stjórnarskrár og að það kynni að koma til kasta dómsmála á næstu misserum að taka afstöðu til stjórnskipulegs samhengis þessa fyrirkomulags eins og það var og að hvaða marki það hefði verið í samræmi við þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands, taldi umboðsmaður jafnframt að ekki væri ástæða til að taka á grundvelli 5. og 11. gr. laga nr. 85/1997 afstöðu til þess hvort meinbugir hefðu verið á fyrirkomulagi laga nr. 87/1992, eða hver þýðing slíkra mögulegra meinbuga gæti verið fyrir niðurstöðu þessa máls, sbr. c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Þá taldi umboðsmaður, með hliðsjón af því að Alþingi hefði nú tekið afstöðu til þess hvers efnis reglur um gjaldeyrismál skyldu vera, svigrúmi sem játa yrði stjórnvöldum og þess hvernig kvörtunarefni A væru úr garði gerð ekki ástæðu til að gera athugasemdir við efni reglna nr. 880/2009.

Að lokum fjallaði umboðsmaður um ákvörðun Seðlabanka Íslands og efnahags- og viðskiptaráðuneytisins um að synja A um undanþágu frá 1. mgr. 4. gr. reglnanna um bann við úttektum af gjaldeyrisreikningi, frá 2. mgr. 3. gr. reglnanna um bann við kaupum á erlendum gjaldeyri nema í vissum tilgangi og 1. mgr. 5. gr. um bann við fjárfestingum í verðbréfum gefnum út í erlendum gjaldeyri. Fyrir lá að hagsmunir A af því að komast hjá tiltekinni skattheimtu, þ.e. skattlagningu á gengishagnaði á gjaldeyrisreikningum, og möguleikum á vænlegum fjárfestingarkostum erlendis voru vegnir upp á móti markmiðum að baki takmörkunum reglnanna og mikilvægi þess að gæta að samræmi við í úrlausnum um undanþágur og voru síðarnefndu sjónarmiðin talin vega þyngra. Í ljósi þess svigrúms sem játa yrði Seðlabanka Íslands og efnahags- og viðskiptaráðuneytisins við ákvörðun um að veita undanþágu frá gjaldeyrisreglum taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að telja að ákvörðunin hefði byggst á ómálefnalegum sjónarmið eða verið óforsvaranleg.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu en ritaði efnahags- og viðskiptaráðuneytinu bréf þar sem hann gerði tilteknar athugasemdir við starfshætti þess. Umboðsmaður gerði athugasemdir við að ráðuneytið hefði fellt niður mál vegna erindis frá A þar sem hann kvartaði m.a. yfir því að Seðlabankinn hefði aldrei tilkynnt honum um fyrirhugaðar tafir á máli hans. Umboðsmaður taldi afgreiðsluna ekki í samræmi við óskráða reglu stjórnsýsluréttarins um að skriflegum erindum beri að svara skriflega nema svars sé eigi vænst og vandaða stjórnsýsluhætti. Hann minnti jafnframt á að niðurfelling máls gæti talist stjórnvaldsákvörðun sem bæri að tilkynna málsaðila, sbr. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, en tók ekki afstöðu til þess hvort ákvæðið hefði átt við í málinu. Umboðsmaður gerði enn fremur athugasemdir við að umsagnar Seðlabanka Íslands um stjórnsýslukæru A hefði ekki verið óskað fyrr en mánuði eftir að kæran barst og benti á það væri í betra samræmi við 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 2. mgr., að gera það við fyrsta hentugleika.