Heilbrigðismál. Eftirlit landlæknis.

(Mál nr. 6745/2011)

A kvartaði yfir framkomu starfsmanna heimahjúkrunar og þjónustu lækna. Enn fremur laut kvörtunin að afstöðu kaþólsku kirkjunnar til fyrirhugaðs hjúskapar A.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 23. desember 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður benti á að kaþólska kirkjan teldist ekki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og félli því ekki undir eftirlit sitt.

Þar sem fyrir lá að A hafði lagt fram kvörtun hjá landlækni er laut að sambærilegum atriðum varðandi þjónustu lækna og heilsugæslu og kvörtun hans til umboðsmanns taldi umboðsmaður rétt, í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, að landlæknir lyki umfjöllun sinni um málið áður en hann tæki það til athugunar. Hann benti A hins vegar á að ef hann teldi sig enn rangindum beittan að fenginni úrlausn landlæknisembættisins gæti hann leitað til sín að nýju. Þá benti hann A á að yrði dráttur á svörum landlæknis við erindi hans gæti hann jafnframt leitað til sín með sértaka kvörtun þar að lútandi.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu en þar sem af skýringum landlæknis vegna málsins varð ekki ráðið hvort eða með hvaða hætti eldri erindum A til embættisins hefði verið svarað ákvað umboðsmaður að rita landlækni bréf þar sem hann benti á óskráða meginreglu stjórnsýsluréttar um að skriflegum erindum sem borgararnir beina til stjórnvalda beri að svara skriflega nema ráða megi af efni erindisins að svars sé ekki vænst.