Lögreglu- og sakamál. Frávísun, niðurfelling, ákvörðun um að hefja ekki rannsókn.

(Mál nr. 6625/2011)

A kvartaði yfir úrskurði innanríkisráðuneytisins þar sem staðfest var ákvörðun ríkissaksóknara um að synja beiðni um opinbera rannsókn á andláti tveggja manna árið 1985 á grundvelli 4. mgr. 66. gr. áðurgildandi laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, þar sem m.a. var kveðið á um heimildir ríkissaksóknara, þegar sérstaklega stæði á, til að mæla fyrir um rannsókn þótt ætla mætti að refsingu yrði ekki við komið, svo vegna sakarfyrningar, ef ríkir almanna- og einkahagsmunir mæltu með því. Með úrskurðinum var stjórnsýslukæru A jafnframt vísað frá að hluta, þ.e. að því leyti sem hún laut að rannsókn og viðbrögðum ríkislögreglustjóra og starfsmanna hans.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 28. desember 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður tók fram að ef talið yrði að mat ríkissaksóknara og annarra stjórnvalda um að ekki væri tilefni til að hefja rannsókn væri forsvaranlegt að virtum gögnum málsins, matið væri málefnalegt og að gætt hefði verið réttra málsmeðferðarreglna væru að jafnaði ekki forsendur til að umboðsmaður Alþingis aðhefðist frekar í tilefni af slíkum kvörtunum. Umboðsmaður taldi ekki fært að draga aðra ályktun af fyrirliggjandi gögnum málsins en að ríkissaksóknari hefði leitast við að upplýsa eins og kostur var hvort matskennd skilyrði 4. mgr. 66. gr. laga nr. 19/1991 hefðu verið fyrir hendi. Umboðsmaður tók jafnframt fram að í reynd hefðu tilteknar ráðstafanir ríkissaksóknara að nokkru marki falið í sér athugun á atburðum sem áttu sér stað í tengslum við dauða mannanna og þá í ljósi athugasemda aðstandenda þeirra. Það varð niðurstaða umboðsmanns að hann hefði ekki forsendur til að draga í efa að það mat ríkissaksóknara hefði verið forsvaranlegt að þrátt fyrir annmarka á lögreglurannsókn málsins benti athugunin og ný gögn málsins ekki til þess að refsiverð háttsemi hefði átt sér stað. Þá taldi umboðsmaður ekki forsendur til að gera athugasemdir við þá afstöðu innanríkisráðuneytisins að ekkert benti til þess að gögn málsins væru ósönn eða rangfærð.

Í ljósi þess að í 4. mgr. 66. gr. laga nr. 19/1991 var ekki gert ráð fyrir að ráðherra tæki ákvörðun í máli af þessu tagi á grundvelli reglna um endurupptöku heldur á grundvelli reglna um stjórnsýslukæru gerði umboðsmaður ekki athugasemd við þá niðurstöðu innanríkisráðuneytisins að ráðuneytið væri ekki bært að lögum til að endurupptaka ákvarðanir ríkissaksóknara. Þá taldi umboðsmaður ekki tilefni til athugasemda við umfjöllun ráðuneytisins um andmælarétt og úrskurð Persónuverndar um atriði sem tengdust málinu.

Að lokum gerði umboðsmaður ekki athugasemd við þá niðurstöðu ráðuneytisins að það hefði ekki verið bært til að fjalla um viðbrögð ríkislögreglustjóra og embættismanna hans vegna beiðni A um afhendingu gagna. Hann benti A á að ef hann teldi að um refsiverða háttsemi þeirra hefði verið að ræða væri gert ráð fyrir að kæru á hendur starfsmanni lögreglu fyrir ætlað refsivert brot við framkvæmd starfa hans skyldi beina til ríkissaksóknara, sbr. 1. mgr. 36. gr., sbr. 1. mgr. 9. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Ef athugasemdirnar hefðu aftur á móti lotið almennt að embættisfærslum ríkislögreglustjóra og starfsmanna hans vegna málsins gæti önnur staða verið uppi á teningnum.

Umboðsmaður lauk málinu en ákvað að rita innanríkisráðherra bréf þar sem hann benti á að innanríkisráðuneytið hefði almennt eftirlit með starfsháttum ríkislögreglustjóra og starfsmanna hans og bæri því, á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda og einnig 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga að ganga úr skugga um efni stjórnsýslukæru sem lyti að starfsemi ríkislögreglustjóra væri hún ekki talin nægilega skýr.