Skattar og gjöld. Innheimta opinberra gjalda. Afhending yfirlits yfir skuldastöðu opinberra gjalda.

(Mál nr. 210/1989)

Máli lokið með áliti, dags. 24. júní 1991.

A kvartaði í fyrsta lagi yfir því, að dregist hefði úr hömlu, að honum væri sent yfirlit yfir greiðslu- og skuldastöðu sína hjá sveitarfélaginu X. Umboðsmaður taldi, að í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti yrði að gera þær kröfur til stjórnvalda, sem hefðu með höndum innheimtu opinberra gjalda, að þau hefðu að jafnaði tiltækar upplýsingar um greiðslu- og skuldastöðu einstakra gjaldenda. Umboðsmaður átaldi, að A hefði ekki borist umbeðið yfirlit fyrr en rúmum átta mánuðum eftir að hann hafði óskað eftir því. Í öðru lagi kvartaði A yfir því, að oddviti hreppsins hefði ranglega krafist þess, að haldið yrði eftir fé af launum hans til greiðslu fasteignaskatts og aðstöðugjalds. Varðandi þennan þátt kvörtunarinnar tók umboðsmaður fram, að það girti ekki fyrir samkomulag gjaldanda og sveitarsjóðs um slíka tilhögun innheimtu þessara gjalda, þótt skýrar lagaheimildir hefðu ekki verið fyrir hendi til þess að innheimta þau með þessum hætti. Fyrir lægi, að svo hefði um samist milli A og sveitarsjóðs að hann greiddi skuld sína við hreppinn með tilteknum, mánaðarlegum afborgunum og ekki yrði fullyrt, að umrædd gjöld hefðu verið undanskilin. Taldi umboðsmaður, að ekki yrði staðhæft, að umrædd innheimta sveitarsjóðsins hefði verið ólögmæt.

I. Kvörtun og málavextir.

Hinn 24. nóvember 1989 barst mér kvörtun frá A, búsettum í X-hreppi, er varðaði innheimtu á opinberum gjöldum A í sveitarsjóð hreppsins. Tildrög málsins voru þau, að í apríl 1989 fór A þess á leit við oddvita hreppsins, að honum yrði sent yfirlit yfir greiðslu- og skuldastöðu sína hjá hreppnum. Tilefni þessa var, að A taldi of hart að sér gengið við innheimtuna, þar sem haldið væri eftir miklum hluta launa sinna. Af þessu tilefni ritaði A hreppsnefndinni bréf 31. maí 1989, þar sem hann tók m.a. fram, að hann hefði ekki fengið nefnt yfirlit. Hinn 12. júní 1989 tilkynnti hreppsnefndin A að yfirlit yfir skuldastöðu hans, sem oddviti hefði lofað að senda, væri í vinnslu hjá endurskoðanda og yrði tafarlaust sent, þegar það bærist. Með bréfi, dags. 5. september 1989, ítrekaði A fyrri ósk sína um yfirlit yfir greiðslu- og skuldastöðu sína. Hinn 27. október 1989 ritaði A félagsmálaráðuneytinu bréf, þar sem hann tók m.a. fram, að hann hefði ekki enn fengið umrætt yfirlit, sem honum hefði verið lofað.

II. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Með bréfi, dags. 12. desember 1989, fór ég þess á leit, að félagsmálaráðuneytið veitti mér upplýsingar um, sbr. 7. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, hvort bréfi A frá 27. október 1989 hefði verið svarað og ef svo væri ekki, hvað liði afgreiðslu á svari við því. Í svarbréfi félagsmálaráðuneytisins frá 28. desember 1989 kom fram, að erindi A hefði verið svarað 21. desember 1989 og sama dag hefði ráðuneytið ritað oddvita X-hrepps bréf, en þar lagði ráðuneytið áherslu á, að A yrði sent nefnt yfirlit.

Hinn 24. janúar 1990 ritaði ég hreppsnefnd X-hrepps bréf, þar sem ég vísaði til áðurnefnds bréfs oddvita frá 12. júní 1989 og bréfs félagsmálaráðuneytisins frá 21. desember 1989. Í bréfi mínu óskaði ég eftir upplýsingum um, hvað liði afgreiðslu umrædds yfirlits til A. Með bréfi, dags. 5. febrúar 1990, tilkynnti hreppsnefndin mér, að A hefði verið sent umbeðið yfirlit.

Með bréfi, dags. 14. mars 1991, beindi ég þeim tilmælum til oddvita X-hrepps, sbr. 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að hreppsnefndin skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A. Ég tók fram, að A kvartaði í fyrsta lagi yfir því, að á tímabilinu frá því í apríl 1989 fram yfir áramót 1989/1990 hefði hann ekki getað fengið yfirlit yfir greiðslu- og skuldastöðu sína við hreppinn. Auk þess hefði það yfirlit, sem hann hefði að lokum fengið, verið ófullkomið, þar sem vaxtaútreikningur hefði til dæmis ekki verið nægilega skýr. Í öðru lagi kvartaði A yfir því, að oddviti hreppsins hefði ranglega krafist þess, að haldið yrði eftir fé af launum hans til greiðslu fasteignaskatts og aðstöðugjalds. Ég ítrekaði tilmæli mín tvívegis, síðast með bréfi, dags. 14. mars 1991, og barst loks svar oddvita X-hrepps í bréfi, dags. 22. maí 1991. Í bréfi oddvitans sagði:

"[A] virðist ekki hafa séð ástæðu til að skila skattframtali á árunum 1985-1988.

Sveitarsjóðsgjöld voru því áætluð á [A] og fékk hann senda skuldastöðu eins og aðrir sveitungar, en sinnti ekki um greiðslur.

Skattbreytingar [A] fyrir þessi ár, bárust hreppsnefnd í byrjun febrúar 1989. Þar sem að um svo mörg ár var að ræða þótti oddvita rétt að láta löggiltan endurskoðanda reikna út vexti af raunverulegri skuld, áður en yfirlit væri sent [A].

[A] hefur ekki kvartað við oddvita yfir ófullkomnu yfirliti eða vaxtaútreikningi.

Hreppsnefndin telur að [A] sé jafn skylt og öðrum sveitungum að greiða sín gjöld til sveitarinnar, en til þess hafði hann ekki sýnt neina tilburði þessi ár eins og áður er getið."

III. Niðurstaða.

Í niðurstöðu álits míns, dags. 24. júní 1991, sagði svo um kvörtunarefni A varðandi tilhögun innheimtu:

"Í 44. gr. laga nr. 73/1980 um tekjustofna sveitarfélaga segir, sbr. nú 42. gr. laga nr. 90/1990, að gjöld og dráttarvexti megi taka lögtaki, sbr. lög nr. 29/1985, og kemur ekki fram í lögunum, að innheimtumönnum sé eða hafi verið heimil önnur úrræði til innheimtu fasteignaskatts, svo sem fyrirmæli til vinnuveitanda að halda eftir af launum launþega. Einnig er ekki skýrt, að á þeim tíma, sem hér skiptir máli, hafi verið heimilt að innheimta aðstöðugjöld með þessum hætti, sbr. nú hins vegar 37. gr. laga nr. 90/1990. Það girðir samt ekki fyrir, að sveitarsjóður og launþegi semji svo sín á milli, að þessi gjöld skuli innheimt með nefndum hætti. Í gögnum málsins kemur fram af hálfu hreppsnefndar X-hrepps, að samkomulag hafi orðið við A um að hann greiddi niður skuld sína við sveitarsjóð með tilteknum mánaðarlegum afborgunum og verður ekki fullyrt að umrædd gjöld hafi þar verið undanskilin. Tel ég samkvæmt þessu, að ekki verði staðhæft að umrædd innheimta af hálfu sveitarsjóðs hafi verið ólögmæt."

IV.

Þá sagði svo í niðurstöðu minni almennt um málsefnið og drátt á afhendingu yfirlits um greiðslu- og skuldastöðu A.

"Í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti verður að gera þær kröfur til stjórnvalda, sem hafa með höndum innheimtu opinberra gjalda, að þau hafi jafnan tiltækar upplýsingar um greiðslu- og skuldastöðu einstakra gjaldenda. Ekki verður séð að neinar sérstakar ástæður hafi réttlætt það, að A fékk ekki afhent nefnt yfirlit fyrr en rúmum átta mánuðum eftir að hann hafði óskað eftir því. Verður því að átelja þennan drátt."