Menningarmál.

(Mál nr. 6052/2010)

A ehf. kvartaði því að mennta- og menningarmálaráðuneytið hefði ekki samþykkt beiðni leikhússins um gerð samnings um fjárstuðning. A ehf. taldi ráðuneytið hafa brotið gegn 2. mgr. 16. gr. leiklistarlaga nr. 138/1998, þar sem fram kemur að við gerð tímabundins samnings við rekstraraðila atvinnuleikhúss skuli taka sérstakt tillit til leiklistarstofnana og félaga sem lengi hafa notið fjárhagslegs stuðnings úr ríkissjóði, og vísaði í því sambandi til þess að gerður hefði verið samningur við B og C sem hefðu notið stuðnings í skemmri tíma en A ehf. Af kvörtuninni varð einnig ráðið að A ehf. væri ósátt við að þremur umsóknum þess um verkefnastyrki hefði verið synjað og að A ehf. teldi að leiklistarráð hefði ekki gætt að rannsóknarskyldu sinni þegar tekin var ákvörðun um tillögur til styrkja fyrir árið 2010.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfið, dags. 28. desember 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður taldi ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þau sjónarmið sem voru lögð til grundvallar tillögum leiklistarráðs og ákvörðunum mennta- og menningarmálaráðuneytisins um úthlutun styrkja til atvinnuleikhópa árið 2010. Þá taldi hann sig ekki hafa forsendur til að draga í efa það faglega mat leiklistarráðs að þeir sem hlutu fjárstuðning umrætt sinn hefðu verið best að því komnir miðað við þau sjónarmið sem lögð voru til grundvallar úthlutuninni eða að leiklistarráð hefði haft fullnægjandi forsendur til að leggja mat á þær umsóknir sem bárust. Að lokum taldi umboðsmaður 2. mgr. 16. gr. leiklistarlaga ekki fela í sér skýr skilyrði um að þeir sem hefðu lengi notið fjárstuðnings skyldu ávallt hafa forgang fram yfir aðra umsækjendur. Það varð niðurstaða umboðsmanns að hann hefði ekki forsendur til að gera athugasemdir við að A ehf. hefði ekki hlotið fjárstuðning árið 2010.

Umboðsmaður lauk umfjöllun sinni um kvörtunina en ákvað hins vegar að rita mennta- og menningarmálaráðherra bréf og koma á framfæri tilteknum ábendingum um stjórnsýslu ráðuneytisins. Umboðsmaður taldi að þegar auglýst væri eftir umsóknum um styrki og samninga á grundvelli leiklistarlaga yrði að gera skýrari og gleggri mun á því hvort styrkveitingin væri á grundvelli 14. eða 16. gr. laganna, en nokkur munur er á efni þeirra ákvæða. Vegna samninga á grundvelli 16. gr. væri einnig rétt að fram kæmi hvort og þá hvaða áskilnaður væri gerður um aðkomu sveitarfélaga að slíkum samningum og til hvaða tíma til greina kæmi að semja. Þar sem þessara atriða var ekki gætt taldi umboðsmaður að undirbúningur styrkúthlutana til atvinnuleikhópa árið 2010 hefði ekki verið í nægjanlegu samræmi við sjónarmið um vandaða stjórnsýsluhætti.

Umboðsmaður vakti jafnframt athygli á því hversu óljóst efni 2. mgr. 16. gr. leiklistarlaga væri og kom þeirri ábendingu á framfæri við ráðuneytið með hliðsjón af 11. gr. laga nr. 85/1997 að gæta að því við endurskoðun laganna að gera ákvæðið skýrara ef á annað borð væri talin þörf á því.

Umboðsmaður taldi enn fremur að sú framkvæmd mennta- og menningarmálaráðuneytisins að takmarka athugun sína á tillögum leiklistarráðs við að kanna hvort hæfisreglur hefðu verið virtar væri ekki í nægilega góðu samræmi við þær skyldur sem hvíla á ráðuneytinu lögum samkvæmt, s.s. til að byggja ákvarðanir sínar um úthlutun verkefnastyrkja á fullnægjandi grundvelli, t.d. með því að kynna sér á hvaða sjónarmiðum umsögn fagaðila byggist og ganga þannig úr skugga um að hann hafi gætt jafnræðis og málefnalegra sjónarmiða að öðru leyti.

Að lokum gerði umboðsmaður athugasemdir við að mennta- og menningarmálaráðuneytið hefði ekki sett reglugerð um undirbúning og tilhögun styrkveitinga á grundvelli leiklistarlaga eins og gert væri ráð fyrir í lögunum heldur starfaði leiklistarráð eftir vinnureglum þar sem kveðið væri á um ýmis atriði sem sneru beinlínis að undirbúningi og tilhögun styrkveitinga og fælu jafnvel í sér frekari skilyrði fyrir styrkveitingu en kæmu fram í leiklistarlögum. Umboðsmaður kom því þeirri ábendingu á framfæri við mennta- og menningarmálaráðherra að gera ráðstafanir til þess að setja reglugerðina. Umboðsmaður benti ráðuneytinu jafnframt á að taka afstöðu til þess hvort tilefni væri til að huga að því að gera regluverk um aðgengi að fjármunum sem úthlutað væri til leiklistarstarfsemi skýrara, s.s. með tilliti til þess á hvaða grundvelli styrkúthlutun eða samningur byggðist, aðkomu leiklistarráðs og eftirlitshlutverks ráðuneytisins.