Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

(Mál nr. 6750/2011)

Hinn 28. nóvember 2011 kvartaði A yfir því að stjórn Persónuverndar hefði frestað því til 10. janúar 2012 að afgreiða kvörtun sem hann hafði lagt fram hjá stofnuninni 19. september 2011. Af erindi A varð jafnframt ráðið að það beindist að því að tilteknar upplýsingar um hann væru enn aðgengilegar á Netinu án nokkurra athugasemda frá Persónuvernd.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 12. desember 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Að virtum gögnum málsins taldi umboðsmaður að enn hefði ekki orðið slíkur dráttur á meðferð þess hjá Persónuvernd að tilefni væri til að taka það til frekari athugunar og hafði þar jafnframt í huga að A virtist haldið upplýstum um stöðu málsins hjá og fyrirhugaðan afgreiðslutíma þess. Í ljósi þess að Persónuvernd hafði ekki enn komist að niðurstöðu um hvort birting upplýsinganna um A bryti í bága við lög og að í lögum nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, væri ekki að finna nein bráðabirgðaúrræði stofnuninni til handa taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast sérstaklega vegna þess að Persónuvernd hefði ekki gripið til ráðstafana til að koma í veg fyrir birtinguna. Umboðsmaður benti honum hins vegar á að honum kynni að vera fær sú leið að krefjast lögbanns við birtingunni á grundvelli laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Umboðsmaður lauk málinu en tók fram að ef Persónuvernd hefði ekki leyst úr málinu hæfilegs tíma frá 10. janúar 2012 gæti hann leitað til sín á ný og þá yrði metið hvort tilefni væri til að aðhafast.