Samningar.

(Mál nr. 6674/2011)

A kvartaði yfir ákvörðun sveitarfélags um að hafna kröfu hans um lækkun á gjaldi fyrir heitt vatn. A hafði lagt fram kæru hjá innanríkisráðuneytinu vegna ákvörðunarinnar en henni var vísað frá þar sem meira en ár var liðið frá því að A var tilkynnt um ákvörðunina.

Umboðsmaður Alþingis lauk umfjöllun sinni um málið með bréfi, dags. 20. desember 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. og c-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í ljósi 1. mgr. 27. gr. og 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við að ráðuneytið hefði vísað kærunni frá. Þar sem ekki lá fyrir efnisleg afstaða innanríkisráðuneytisins til ágreinings A og sveitarfélagsins taldi umboðsmaður sig ekki geta tekið málið til athugunar, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Þá áréttaði umboðsmaður það sem hafði komið fram í fyrri bréfaskiptum við A, sjá mál nr. 6597/2011, að ekki yrði annað séð en að í reynd væri um að ræða ágreining milli A og hitaveitu sveitarfélagsins um efndir á einkaréttarlegum samningi þessara aðila sem virtist ekki hafa verið leiddur endanlega til lykta. Umboðsmaður taldi því ekki lagaskilyrði fyrir því að fjalla um málið og eðlilegt að dómstólar leystu úr því. Með vísan til þess taldi umboðsmaður ekki tilefni til að aðhafast frekar út af kvörtun A og lauk umfjöllun sinni um hana.