Skattar og gjöld. Fasteignagjöld.

(Mál nr. 6766/2011)

A kvartaði yfir því að sveitarfélag hefði krafið sig um tiltekna fjárhæð vegna fasteignagjalda fyrir árið 2008 sökum þess að greiðsluseðlar hefðu týnst í bankakerfinu og dottið út úr heimabönkum. A óskaði eftir upplýsingum um hvort það stæðist lög að innheimta fasteignagjöld fyrir árið 2008 í nóvember 2011 og hvort ekki væri fyrningarfrestur á kröfum.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 16. desember 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í ljósi 102. og 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og með vísan til þeirra sjónarmiða sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður rétt að A freistaði þess að bera umkvörtunarefni sitt undir innanríkisráðuneytið. Umboðsmaður lauk athugun sinni en tók fram að A gæti leitað til sín að nýju yrði hún ósátt við afgreiðslu ráðuneytisins á málinu.