Svör við erindum. Kvartanir eða kærur til æðri stjórnvalda eða eftirlitsstofnana.

(Mál nr. 6642/2011)

A kvartaði yfir töfum innanríkisráðuneytisins á afgreiðslu á kæru á úrskurði sýslumanns um kröfu hennar um framfærslueyri úr hendi B. A taldi töf ráðuneytisins á afgreiðslu málsins brjóta gegn málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 16. desember 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

A kærði úrskurð sýslumanns 28. maí 2010 en kveðst hafa dregið kæruna til baka 7. september 2011, eða um einu ári og þremur mánuðum eftir að hún var lögð fram, þar sem hún hafði þá gert samning við B þar sem m.a. kom fram að kæran skyldi felld niður að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Í skýringum innanríkisráðuneytisins til umboðsmanns vegna málsins var viðurkennt að tafir hefðu orðið á afgreiðslu málsins og að ráðuneytið hefði jafnframt gert þau mistök að svara ekki tilteknum tölvubréfum sem send voru í apríl 2011. Þá viðurkenndi ráðuneytið að borið hefði að upplýsa A um fyrirsjáanlegar tafir á afgreiðslu málsins þegar fyrir fyrir lá að það myndi tefjast og hvenær niðurstöðu væri að vænta. Umboðsmaður taldi því ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni kvörtunarinnar en benti A á að ef hún teldi sig hafa orðið fyrir tjóni vegna tafanna væri það hlutverk dómstóla að fjalla um hugsanlega skaðabótaskyldu, sbr. c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Umboðsmaður ákvað jafnframt að rita innanríkisráðuneytinu þar sem hann áréttaði mikilvægi þess að hraða afgreiðslu mála á umræddu sviði og tók jafnframt fram að á yfirstjórn ráðuneytisins hvíldi skylda til að haga skiptingu verkefna milli starfsmanna og skipulagi sumarleyfa þannig að hægt væri að afgreiða mál sem ráðuneytinu væri ætlað að fjalla um með eðlilegum hraða. Umboðsmaður áréttaði jafnframt að það væri óskráð meginregla í íslenskum stjórnsýslurétti að hver sá sem ber upp skriflegt erindi við stjórnvald eigi rétt á að fá skriflegt svar nema erindið beri með sér að svars sé ekki vænst. Að lokum áréttaði hann mikilvægi þess að innanríkisráðuneytið hefði framvegis frumkvæði að því að tilkynna kæranda um tafir á afgreiðslu málsins og leitaðist við að veita upplýsingar um hvenær ákvörðunar væri að vænta.