Opinberir starfsmenn. Þagnarskylda. Varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna.

(Mál nr. 1272/1994)

A kvartaði yfir því, að lögreglan á Keflavíkurflugvelli hefði afhent tryggingafélaginu T bréf skaðabótanefndar, þar sem komu fram athugasemdir sem skilja mátti sem grunsemdir um refsivert athæfi A í tengslum við kröfu hans á hendur Skaðabótanefnd. Umboðsmaður tók fram, að þagnarskylda opinberra starfsmanna samkvæmt 32. gr. laga nr. 38/1954 væri ekki bundin við atriði sem leynt skyldu fara lögum samkvæmt, heldur einnig samkvæmt eðli máls. Benti umboðsmaður á, að eðlilegt væri að hafa hliðsjón af ákvæðum laga nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, við skýringu á inntaki þagnarskyldunnar, en meðal þeirra upplýsinga sem þar eru nefndar eru upplýsingar um það, hvort maður hefur verið grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað. Þar sem um upplýsingar var að ræða í bréfi skaðabótanefndar sem leynt áttu að fara, og þar sem tryggingafélagið T tryggði bifreið A ábyrgðartryggingu, sem ekki gat reynt á í sambandi við kröfu A á hendur skaðabótanefnd, taldi umboðsmaður, að ekki hefði átt að afhenda T bréf skaðabótanefndar. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til utanríkisráðuneytisins, að sjá til þess, að embætti lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli færi framvegis eftir þeim sjónarmiðum sem rakin voru í álitinu.

I. Hinn 8. nóvember 1994 bar A, fram kvörtun yfir því, að lögreglan á Keflavíkurflugvelli hefði afhent T hf. ljósrit af lögregluskýrslu, sem tekin var að beiðni skaðabótanefndar, sbr. bréf nefndarinnar frá 27. maí 1993. Telur A efni umræddrar skýrslu hafa verið þess eðlis, að óheimilt hafi verið að senda T hf. ljósrit af henni og með því verið brotið í bága við reglur um þagnarskyldu opinberra starfsmanna. II. Samkvæmt gögnum málsins eru málavextir þeir, að hinn 23. apríl 1993 ók A bifreiðinni X að gatnamótum Reykjanesbrautar og Krísuvíkurvegar og stöðvaði bifreiðina þar. Í sama mund ók bifreiðin VL-... eftir Reykjanesbraut í átt að Keflavík. Að sögn A skaust þá steinn undan hjólbarða bifreiðarinnar VL-... í afturhliðarrúðu þeirrar bifreiðar, sem hann ók. Með bréfi, dags. 27. maí 1993, óskaði skaðabótanefnd eftir frekari rannsókn á atvikum málsins, en skaðabótanefnd er skipuð af utanríkisráðherra samkvæmt lögum nr. 110/1951, um lagagildi varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna og um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þess, og úrskurðar um kröfur, er rísa út af varnarsamningnum. Af því tilefni var tekin lögregluskýrsla af A hinn 9. september 1993. Yfirlögregluþjónn Ríkislögreglunnar á Keflavíkurflugvelli og lögreglufulltrúi hjá Rannsóknarlögreglunni á Keflavíkurflugvelli fóru einnig á vettvang og könnuðu aðstæður og sömdu lögregluskýrslu í framhaldi af því, dags. 11. október 1993. Í kvörtun A segir m.a. svo: "[...] rannsóknarlögreglumaður á Vellinum sendi síðan tryggingarfélaginu [T] hf., umboðsmanni félagsins í Keflavík, ljósrit af þessu bréfi og var það tekið mjög alvarlega á þeim bæ. Þeir sendu bílaverkstæðinu í Njarðvík ljósrit af umræddu bréfi og skildist eiganda verkstæðisins að þar væri um aðvörun að ræða ef hann hefði hjálpað mér að taka þátt í þessari svikatilraun... Ég hugðist tryggja meir hjá þessu félagi en ég fékk þau svör að þeir vildu ekki eiga viðskipti við mann sem hefði og væri grunaður um að svíkja fé út úr Varnarliðinu. Einnig talaði umboðsmaður þessa tryggingarfélags við son minn og óskaði eftir því að bíll sá er ég er með og er enn á nafni sonar míns yrði ekki tryggður þar." Með bréfi, dags. 12. október 1994, lýsti Rannsóknarlögreglan á Keflavíkurflugvelli afstöðu sinni til kvörtunar A. Þar segir m.a. svo: "Frumgögn málsins voru send [T] og Skaðabótanefnd, en bréf barst frá nefndinni dags. 27.05.93 þar sem farið var fram á rannsókn á ýmsum þáttum málsins sem hér um ræðir: Nr. R-.../93 og U-.../93. Þessi rannsókn var síðan framkvæmd af mér og [...] yfirlögregluþjóni. Aflað var m.a. gagna hjá [A] Að rannsókn lokinni var málið sent Skaðabótanefnd og [T] Meðal gagna sendum [T], var afrit áðurnefnds bréfs Skaðabótanefndar. Þetta var í fullu samræmi við þær starfsreglur sem farið hefir verið eftir sl. áratugi hér hjá embættinu. Sjálfur hefi ég starfað við þessa málaflokka síðan 1972 og hafa sendingar mínar á gögnum til tryggingafélaga ekki verið gagnrýndar. Umrætt bréf frá Skaðabótanefnd var forsenda framhaldsrannsóknar og öflunar gagna í umræddu máli. Sá ég ekkert í bréfi þessu er hamlaði því að ég sendi afrit af því til [T] ásamt öðrum gögnum, eða gæti skaðað aðila málsins, tjónþola eða aðra. Ég hefi borið þetta undir yfirlögregluþjón, [...] og er hann á sama máli." III. Með bréfi, dags. 3. febrúar 1995, gerði utanríkisráðuneytið grein fyrir viðhorfum sínum til málsins og segir m.a. svo í bréfinu: "Eins og fram kemur í gögnum sendi ríkislögreglan á Keflavíkurflugvelli tiltekin gögn til [T], í samræmi við venju hjá embættinu. Utanríkisráðuneytið sér, á grundvelli hjálagðra gagna, ekki ástæðu til að endurskoða það mat sem að baki þeirri ákvörðun lá, enda byggir ráðuneytið á því sjónarmiði við yfirstjórn lögreglumála á Keflavíkurflugvelli að ríkislögreglan njóti nægilegs sjálfræðis við frjálst mat, í tengslum við rannsókn mála. Ráðuneytið telur ennfremur rétt hafa verið að málum staðið af hálfu skaðabótanefndar og aðstæður málsins hafi gefið fulla ástæðu til að fela málið ríkislögreglu til rannsóknar." IV. Í áliti mínu, dags. 29. ágúst 1995, segir: "Í 32. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, er kveðið á um þagnarskyldu. Þar segir: "Hverjum starfsmanni er skylt að gæta þagmælsku um atriði, er hann fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkv. lögum, fyrirmælum yfirboðara eða eðli málsins. Þagnarskyldan helzt, þótt látið sé af starfi." Samkvæmt ákvæðinu er þagnarskyldan þannig ekki bundin við atriði, sem leynt skulu fara samkvæmt lögum og fyrirmælum yfirboðara, heldur einnig samkvæmt eðli máls. Lög nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, taka samkvæmt efni sínu ekki til þess máls, sem hér er um fjallað, þar sem ekki er um kerfisbundna skráningu persónuupplýsinga að ræða. Hins vegar er rétt að hafa hliðsjón af ákvæðum þeirra laga við úrlausn þess, hvert sé inntak þagnarskyldunnar samkvæmt eðli máls, sbr. einkum 3. mgr. 1. gr. og 1. mgr. 4. gr. laganna. Í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 121/1989 segir: "Með persónuupplýsingum er átt við upplýsingar sem varða einkamálefni, fjárhagsmálefni eða önnur málefni einstaklinga, stofnana, fyrirtækja eða annarra lögpersóna sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari." Í a-c-liðum 1. mgr. 4. gr. sömu laga er tilgreint, hvaða upplýsingar, er varða einkamálefni einstaklinga, sé óheimilt að skrá. Samkvæmt b-lið 1. mgr. á bannið við um upplýsingar um það, hvort maður hafi verið grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað. V. Kvörtun beinist að því, að lögreglunni á Keflavíkurflugvelli hafi verið óheimilt að afhenda T hf. bréf skaðabótanefndar, dags. 27. maí 1993, og hafi með því verið brotið í bága við reglur um þagnarskyldu opinberra starfsmanna. Eigandi bifreiðarinnar X, sem tryggð var lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá T hf., krafði skaðabótanefnd um bætur vegna skemmda á bifreið sinni af völdum steinkasts frá bifreið í eigu varnarliðsins VL-..., en bifreiðar í eigu varnarliðsins eru undanþegnar vátryggingarskyldu, sbr. reglur nr. 568/1988, um ökutæki varnarliðs Bandaríkjanna. Skaðabótanefnd óskaði með bréfi, dags. 27. maí 1993, til rannsóknardeildar Ríkislögreglunnar á Keflavíkurflugvelli eftir frekari rannsókn á málsatvikum, en um tjónsatburðinn gaf A upphaflega skýrslu fyrir lögreglunni í Reykjavík. Í bréfi skaðabótanefndar koma fram efasemdir varðandi tjónsatburð og tjón, sem skilja má sem grunsemdir um refsivert athæfi. Á eyðublöðum fyrir skýrslur lögreglu um umferðarslys er gert ráð fyrir því meðal annars, að aðilar upplýsi, hjá hvaða vátryggingafélögum viðkomandi ökutæki séu vátryggð. Skýrslurnar eru sönnunargagn um tjónsatburð, tildrög hans og vettvang atburðarins, auk þess að upplýsa um umferðarlagabrot. Vátryggðir og tjónþolar, sem eiga bótarétt úr vátryggingum ökutækjanna, hafa því almennt ríka hagsmuni af því að vátryggingafélög fái skýrslur um umferðarslys í hendur og sama gildir um vátryggingafélögin, sem þurfa að taka afstöðu til bótakrafna og hugsanlegs endurkröfuréttar vegna bótagreiðslna, sem þau inna af hendi. Reglur um þagnarskyldu standa því eigi í vegi fyrir þeirri venju, að vátryggingarfélögum, sem tilgreind eru í skýrslum lögreglu um umferðarslys, séu afhentar slíkar skýrslur. Hins vegar tel ég, að T hf. hafi ekki haft beina hagsmuni af því að fá umrætt bréf skaðabótanefndar í hendur, þar sem bifreið sú, er A ók, var einungis tryggð ábyrgðartryggingu hjá T hf. og á hana gat ekki reynt, eins og mál þetta var vaxið. Samkvæmt því og þar sem í bréfinu koma fram upplýsingar, sem leynt áttu að fara samkvæmt 32. gr. laga nr. 38/1954, eins og áður hefur verið rakið, er það skoðun mín, að samkv. síðastgreindu lagaákvæði hafi ekki átt að afhenda T hf. bréf skaðabótanefndar. VI. Samkvæmt framansögðu er niðurstaða mín sú, að samkvæmt 32. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, hafi ekki átt að afhenda T hf. ljósrit umrædds bréfs skaðabótanefndar, dags. 27. maí 1993. Eru það tilmæli mín til utanríkisráðuneytisins, að það sjái til þess að embætti lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli hagi framvegis meðferð gagna í samræmi við þau sjónarmið, sem gerð hefur verið grein fyrir í áliti þessu."