Svör við erindum. Kvartanir eða kærur til æðri stjórnvalda eða eftirlitsstofnana.

(Mál nr. 6733/2011)

A kvartaði yfir meðferð velferðarráðuneytisins á kvörtun hans yfir störfum forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins og bað umboðsmann Alþingis um að fylgjast með málinu, m.a. vegna þess að ráðuneytið hefði ekki staðfest móttöku þess og ekki veitt sér upplýsingar um hvenær og hvernig málið yrði tekið fyrir.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 30. desember 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Með vísan til þess að erindi A hafði verið framsent úrskurðarnefnd almannatrygginga og honum tilkynnt um það og í ljósi þeirra tímamarka sem lög setja nefndinni um afgreiðslutíma taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast frekar vegna kvörtunarinnar að sinni og lauk meðferð sinni á málinu. Hann tók hins vegar fram að ef A teldi óeðlilegar tafir verða á málinu gæti hann leitað til sín að nýju.