Svör við erindum. Kvartanir eða kærur til æðri stjórnvalda eða eftirlitsstofnana.

(Mál nr. 6738/2011)

Hinn 14. nóvember 2011 kvartaði A yfir töfum á afgreiðslu úrskurðarnefndar um upplýsingamál á kæru, dags. 30. mars 2011, vegna takmörkunar Fjármálaeftirlitsins á aðgangi að upplýsingum um föst launakjör tiltekinna starfsmanna eftirlitsins.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 16. desember 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum úrskurðarnefndar upplýsingamála til umboðsmanns kom fram að úrskurður í málinu hefði verið kveðinn upp 14. desember 2011. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að fjalla frekar um kvörtunina og lauk málinu. Umboðsmaður upplýsti A þó um að hann hefði nú þegar til athugunar hvort tilefni væri til að taka málsmeðferðartíma nefndarinnar til athugunar að eigin frumkvæði og að hann myndi hafa upplýsingar sem bárust frá A í huga við ákvörðun um það og athugunina ef til hennar kæmi.