Svör við erindum. Rökstuðningur eða skýringar.

(Mál nr. 6737/2011)

Hinn 15. nóvember 2011 kvörtuðu samtökin A yfir því að hafa ekki borist fullnægjandi svör frá Þjóðskrá Íslands við beiðni um skýringar á gjaldtöku stofnunarinnar fyrir aðgang að upplýsingum úr þjóðskrá. Beiðnin var send 30. september 2011 og henni svarað 7. nóvember 2011. A töldu svörin ófullnægjandi og ítrekuðu því fyrirspurn sína 14. nóvember 2011.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 30. desember 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum Þjóðskrár Íslands til umboðsmanns vegna málsins kom fram að erindinu hefði verið svarað 28. nóvember 2011. Umboðsmaður taldi því ekki ástæðu til að aðhafast frekar vegna kvörtunarinnar en tók fram að ef samtökin væru ósátt við svör Þjóðskrár Íslands væri þeim heimilt að leita til sín að nýju.