Svör við erindum. Rökstuðningur eða skýringar.

(Mál nr. 6779/2011)

Hinn 28. nóvember 2011 kvartaði félagið A yfir því að hafa ekki borist svör frá forstöðumanni fangelsis vegna erindis, dags. 6. október 2011, varðandi verklagsreglur um heimsóknir til fanga og skýringar á nánar tilteknum atriðum er vörðuðu ákvarðanir um líkamsleit á föngum eftir heimsóknir.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 30. desember 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum fangelsisins kom fram að erindinu hefði verið svarað 8. desember 2011. Umboðsmaður taldi því ekki ástæðu til að aðhafast frekar að sinni en benti á að innanríkisráðherra hefði almennt eftirlit með starfsemi fangelsisyfirvalda og því gæti félagið freistað þess að leita eftir afstöðu ráðuneytisins til viðkomandi álitaefna.