Svör við erindum. Umsóknir og ákvörðunartaka.

(Mál nr. 6600/2011)

Hinn 11. ágúst 2011 leituðu A og B til umboðsmanns Alþingis vegna samskipta við Umhverfisstofnun í tengslum við hreindýraveiðar á landi sínu. Í erindinu kom m.a. fram að beiðni þeirra um greiðslu vaxta af hreindýraarði, sem var framsend stofnuninni 30. mars 2011, hefði ekki enn verið afgreidd. Þá gerðu þau athugasemdir við setningu laga nr. 63/2011, er fólu m.a. í sér að greiðsla hreindýraarðs til landeigenda er nú óheimil nema landeigandi heimili veiðar allt tímabilið. Í erindinu kom fram að lagasetningin hefði ekki verið kynnt bændum á Austurlandi og hefði verið samþykkt á Alþingi án umræðu. Jafnframt töldu þau að lögin brytu hugsanlega gegn upplýsingaskyldu og stjórnarskrá.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 16. desember 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Á meðan á athugun umboðsmanns á málinu stóð tók Umhverfisstofnun ákvörðun í málinu og fjárhæð greiðslunnar lá fyrir 29. nóvember 2011. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna þess atriðis. Þá vísaði umboðsmaður til þess að samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 tæki starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis og því væri það almennt ekki á verksviði umboðsmanns Alþingis að taka afstöðu til þess hvernig til hefði tekist við setningu laga á Alþingi. Umboðsmaður taldi því ekki lagaskilyrði til þess að taka erindi A og B, að því leyti sem það sneri að starfsháttum Alþingis, til frekari athugunar.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu en gerði athugasemdir við að ákvörðun um hvort fallist yrði á beiðni A og B hefði ekki legið fyrir fyrr en um sjö og hálfum mánuði eftir að beiðnin barst Umhverfisstofnun og ákvörðun um fjárhæð hefði ekki legið fyrr en nokkru síðar. Þá benti umboðsmaður stofnuninni á að gæta framvegis betur að því að upplýsa málsaðila um gang mála, sbr. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.