Lögræðissvipting. Skipun lögráðamanna. Stjórnsýslueftirlit. Meinbugir á lögum.

(Mál nr. 1084/1994)

Í tilefni af erindi A tók umboðsmaður til athugunar, að eigin frumkvæði, skipun lögráðamanna lögræðissviptra manna samkvæmt 1. mgr. 27. gr. lögræðislaga nr. 68/1984. A hafði verið sviptur sjálfræði með dómi í október 1993, en lögráðamaður var ekki skipaður fyrr en í maí 1994, eftir að eftirgrennslan umboðsmanns hófst. Óskaði umboðsmaður eftir upplýsingum frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti, um hvort fylgst væri með skipun lögráðamanna af hálfu ráðuneytisins. Í svari ráðuneytisins kom fram, að svo hefði ekki verið, en að ráðuneytið hefði ákveðið að fylgjast framvegis með skipun lögráðamanna. Í áliti sínu rakti umboðsmaður ákvæði lögræðislaga og lagabreytingar sem urðu við aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds með lögum nr. 92/1989, sbr. lög nr. 92/1991. Var eftirlit með störfum lögráðenda þá í auknum mæli lagt í hendur sýslumanna sem yfirlögráðenda en ákvæði um að dóms- og kirkjumálaráðuneytið skyldi halda skrá um lögræðissvipta menn var óbreytt. Þá var kveðið á um, að skjóta mætti ákvörðunum sýslumanna sem yfirlögráðenda til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til endurskoðunar og ótvírætt var, að dóms- og kirkjumálaráðuneyti færi enn með yfirstjórn lögræðismála, eins og annarra mála er varða persónurétt, samkvæmt 13. tölul. 3. gr. reglugerðar um Stjórnarráð Íslands. Í tilviki A virtist sem úrskurður um sjálfræðissviptingu hefði ekki borist sýslumanni þar sem A átti lögheimili. Í kjölfar þessa sendi dóms- og kirkjumálaráðuneytið öllum héraðsdómstólum bréf, með tilmælum um að endurrit úrskurða yrði sent sýslumanni í ábyrgðarpósti eða með öðrum jafn tryggum hætti, sem og dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Þá fór ráðuneytið þess á leit við alla sýslumenn, að þeir tilkynntu ráðuneytinu bréflega um allar skipanir lögráðamanna. Taldi umboðsmaður að aðgerðir þær, sem ráðuneytið greip til, hefðu verið fullnægjandi til að tryggja eðlilega framkvæmd laganna. Hins vegar benti umboðsmaður á, að mikilvægt væri, að lög sem kveða á um íhlutun í persónuréttindi manna, mæli með skýrum hætti fyrir um framkvæmd laganna, og taldi að taka ætti í lög skýrari ákvæði um skrá um lögræðissvipta menn og tilkynningar um lögræðissviptingar. Mæltist umboðsmaður til þess, að þessi atriði yrðu tekin til athugunar við samningu frumvarps til nýrra lögræðislaga, og var álitið af þessu tilefni sent Alþingi til athugunar.

I. Hinn 24. mars 1994 barst mér erindi frá A vegna dvalar hans á deild 33C á geðdeild Landspítalans, en A hafði verið sviptur sjálfræði með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 1. október 1993. Ég leitaði upplýsinga um mál þetta frá embætti sýslumannsins í Reykjavík og embætti sýslumannsins í Keflavík, þar sem A hefur átt lögheimili, en af svörum þeirra varð ráðið, að A hefði ekki verið skipaður lögráðamaður. Í framhaldi af þessum upplýsingum ákvað ég, með vísan til 1. mgr. 5. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að taka til athugunar að eigin frumkvæði skipun lögráðamanna samkvæmt 1. mgr. 27. gr. lögræðislaga nr. 68/1984. II. Hinn 19. apríl 1994 ritaði ég dóms- og kirkjumálaráðherra bréf og óskaði eftir því, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið léti mér í té upplýsingar um, hvort A hefði verið skipaður lögráðamaður í framhaldi af dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 1. október 1993 og hvort ráðuneytið fylgdist á einhvern hátt með því, að þeim, sem sviptir hefðu verið sjálfræði eða fjárræði, væru skipaðir lögráðamenn. Svar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins barst mér með bréfi 2. ágúst 1994. Þar segir: "I. Svar ráðuneytisins við því, hvort [A] hafi verið skipaður lögráðamaður í framhaldi af úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 1. október 1993. Af tilefni erindis yðar, herra umboðsmaður, hafði skrifstofustjóri einkamálaskrifstofu ráðuneytisins símasamband þann 19. maí sl. við þann fulltrúa dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur er kvað upp úrskurð hinn 1. október 1993 um að [A] skyldi sviptur sjálfræði og spurðist fyrir um hvort endurrit úrskurðarins hefði ekki verið sent sýslumanninum í Keflavík, þar sem [A] átti lögheimili, eða eftir atvikum til sýslumannsins í Reykjavík, þar sem hann dvaldist er úrskurðurinn var kveðinn upp. Að athuguðu máli kvaðst fulltrúinn sjá í gögnum málsins að endurritið hefði verið sent sýslumanninum í Keflavík þegar eftir uppkvaðningu úrskurðarins. Í máli fulltrúans kom fram, að endurrit úrskurðarins hefði verið sent sýslumanni í almennu bréfi og taldi hann þann hátt yfirleitt vera á hafðan í Héraðsdómi Reykjavíkur. Var þess því óskað, að fulltrúinn kæmi því á framfæri við dómstjóra að rétt væri að senda endurrit slíkra úrskurða ávallt í ábyrgðarpósti. Í framhaldi af upplýsingum þessum frá Héraðsdómi Reykjavíkur hafði fyrrgreindur starfsmaður ráðuneytisins símasamband við sýslumanninn í Keflavík og spurðist fyrir um hvort embætti hans hefði ekki borist endurrit úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur í máli því sem hér um ræðir. Að athuguðu máli fullyrti sýslumaður að embætti hans hefði aldrei borist títtnefndur úrskurður. Sendi ráðuneytið honum því úrskurðinn í símbréfi þegar í stað og óskaði eftir því við sýslumann að hann hlutaðist til um að [A] yrði þá þegar skipaður lögráðamaður. Sýslumaður tilkynnti ráðuneytinu símleiðis síðar þann sama dag að faðir [A], [X], hefði tekið að sér að gerast lögráðamaður sonar síns og barst ráðuneytinu staðfest ljósrit af skipunarbréfi honum til handa um lögráðamennskuna daginn eftir, þann 20. maí sl. Rétt er að fram komi, að ráðuneytið hefur ekki orðið þess vart fyrr að sendingar dómstóla á endurritum úrskurða um lögræðissviptingar hafi misfarist í pósti. Af tilefni erindis yðar, herra umboðsmaður, hefur ráðuneytið sent öllum héraðsdómstólum bréf, með tilmælum um að endurrit úrskurðar um lögræðissviptingu manns á grundvelli lögræðislaga nr. 68/1984, er dómara ber að senda sýslumanni og dómsmálaráðuneytinu skv. 8. gr. laganna, sbr. lög nr. 92/1991, verði sent sýslumanni í umdæmi þar sem hinn lögræðissvipti á lögheimili og til dómsmálaráðuneytisins með ábyrgðarpósti eða öðrum jafn tryggum hætti. II. Svar við því, hvort dóms- og kirkjumálaráðuneytið fylgist á einhvern hátt með því, að þeim, sem sviptir hafa verið sjálfræði eða fjárræði, hafi verið skipaðir lögráðamenn. Ráðuneytið hefur fram til þessa ekki fylgst sérstaklega með því, hvort hverjum manni, sem sviptur hefur verið sjálfræði eða fjárræði, hafi verið skipaður lögráðamaður. Ráðuneytið hefur hins vegar ákveðið að framvegis verði fylgst með skipun lögráðamanna þeirra, sem sviptir hafa verið lögræði sínu, og hefur af því tilefni sent bréf til allra sýslumanna, þar sem þess er farið á leit, að sýslumenn tilkynni ráðuneytinu bréflega um allar skipanir lögráðamanna á grundvelli 1. mgr. 27. gr. lögræðislaga þegar í stað eftir útgáfu skipunarbréfs. Mun ráðuneytið færa upplýsingar um lögráðamenn á spjaldskrá þá er því ber að halda um lögræðissvipta menn hér á landi, sbr. 1. mgr. 8. gr. laganna. Í bréfi ráðuneytisins til yðar, herra umboðsmaður, dags. 13. maí 1994, vegna bréfs yðar frá 16. desember 1993, vegna máls er varðaði vistun [...] á sjúkrahúsi kom fram, að ráðuneytið telur ákvæði núgildandi lögræðislaga nr. 68/1984 með síðari breytingum þurfa endurskoðunar við. Af því tilefni skipaði dómsmálaráðherra nefnd hinn 15. mars 1993 til þess að semja frumvarp til nýrra lögræðislaga. Eins og fram kom í bréfi ráðuneytisins hafa störf nefndarinnar því miður legið niðri um hríð vegna mikilla anna þeirra sem í nefndinni eiga sæti. Ráðuneytið telur rétt að tilkynna yður, að ráðherra hefur ákveðið, í því skyni að flýta störfum nefndarinnar, að ráða lögfræðing til starfa fyrir nefndina, og mun hann hefja störf um miðjan ágústmánuð nk. Má því búast við að frumvarpið liggi fyrir á vetri komanda og er að því stefnt að frumvarp til nýrra lögræðislaga verði lagt fyrir næsta þing." III. Niðurstöður álits míns, dags. 24. mars 1995, eru svohljóðandi: "1. Með lögum nr. 92/1989, um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, og lögum nr. 92/1991, um breyting á ýmsum lögum vegna aðskilnaðar dómsvalds og umboðsvalds í héraði, voru gerðar nokkrar breytingar á núgildandi lögræðislögum, nr. 68/1984, meðal annars á verkaskiptingu milli dómstóla og stjórnvalda á þessu sviði. Var eftirlit með störfum lögráðenda í auknum mæli lagt í hendur sýslumanna sem yfirlögráðenda. Samkvæmt 6. gr. laga nr. 68/1984, sbr. laga nr. 92/1991, skal bera kröfu um lögræðissviptingu upp við héraðsdómara á þeim stað, þar sem maður sá, er krafan varðar, á heima eða dvelst. Með 3. og 4. tölul. 79. gr. laga nr. 92/1991 var 8. gr. laga nr. 68/1984 breytt, þannig að fellt var á brott ákvæði 1. mgr. 8. gr. laganna, þar sem sagði, að væri maður sviptur lögræði, birti dómari eða léti birta úrskurð fyrir varnaraðila eða verjanda hans. Þá var breytt 2. mgr. 8. gr. (nú 1. mgr. 8. gr.) laganna þannig, að fellt var brott að dómari skyldi geta lögræðissviptingar á skrá, er hann héldi um lögræðissvipta menn í lögsagnarumdæmi sínu. Hins vegar var bætt við ákvæðið, að auk þess sem dómari skyldi senda dóms- og kirkjumálaráðuneytinu endurrit af úrskurði um lögræðissviptingu skyldi hann nú einnig senda slíkt endurrit til sýslumanns. Eftir sem áður skal dóms- og kirkjumálaráðuneytið halda spjaldskrá um lögræðissvipta menn hér á landi, sbr. áður 2. mgr. 8. gr., en eftir fyrrgreindar breytingar 1. mgr. 8. gr. laga nr. 68/1984. Í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 68/1984 segir, að sé maður sviptur lögræði, skuli yfirlögráðandi skipa honum lögráðamann. Ákvæði þetta stendur óbreytt eftir gildistöku laga nr. 92/1991, en með þeim lögum var aftur á móti breytt 30. gr. laga nr. 68/1984, sem kvað beinum orðum svo á, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefði yfirstjórn þeirra mála, sem lögráð varða. Sýslumenn eru yfirlögráðendur, sbr. 30. gr. laga nr. 68/1984, sbr. 8. tölul. 79. gr. laga nr. 92/1991, en ákvörðun sýslumanns í þeim efnum má skjóta til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til endurskoðunar innan mánaðar frá því að hlutaðeigandi varð hún kunn. 2. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið fer með yfirstjórn mála, er varða persónurétt, sbr. 13. tölul. 3. gr. reglugerðar um Stjórnarráð Íslands, sbr. auglýsingu nr. 96/1969 um staðfestingu forseta Íslands. Hlutverk dóms- og kirkjumálaráðuneytisins er þannig að fara með yfirstjórn þeirra mála, er snerta lögráð. Var kveðið beinum orðum á um þetta hlutverk ráðuneytisins í 1. mgr. 30. gr. laga nr. 68/1984 fyrir gildistöku laga nr. 92/1991, sem breyttu greininni, eins og fyrr segir, þannig að þar er nú kveðið á um heimild til að skjóta ákvörðunum sýslumanna sem yfirlögráðenda til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til endurskoðunar. Eins og fram kemur í bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 28. júlí 1994, var A ekki skipaður lögráðamaður fyrr en 19. maí 1994, en hann hafði þá verið sviptur sjálfræði frá 1. október 1993. Í skýringum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins hefur komið fram, að endurrit úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur í máli A hafi verið sent í almennu bréfi til sýslumannsins í Keflavík, þar sem A átti lögheimili, en svo virðist sem úrskurðurinn hafi ekki borist sýslumanni. Þá kemur fram, að eftir að ráðuneytinu varð ljóst, að á skorti að úrskurðir um lögræðissviptingu væru ávallt sendir til hlutaðeigandi sýslumanns með nægilega tryggum hætti, hafi ráðuneytið sent öllum héraðsdómstólum bréf, með tilmælum um að endurrit slíkra úrskurða yrði sent sýslumanni í umdæmi, þar sem hinn lögræðissvipti átti lögheimili, og til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins með ábyrgðarpósti eða öðrum jafn tryggum hætti. Kveðst dóms- og kirkjumálaráðuneytið ekki hafa fylgst sérstaklega með því, hvort hverjum manni, sem sviptur hefði verið sjálfræði eða fjárræði, væri skipaður lögráðamaður. Ákveðið hafi verið að ráðuneytið fylgist framvegis með skipun lögráðamanna og að færa upplýsingar um lögráðamenn á spjaldskrá þá, er ráðuneytinu ber að halda, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 68/1984. Hafi ráðuneytið farið þess bréflega á leit við alla sýslumenn, að þeir tilkynni ráðuneytinu bréflega um allar skipanir lögráðamanna á grundvelli 1. mgr. 27. gr. lögræðislaga þegar eftir útgáfu skipunarbréfs. Ég tel, að aðgerðir þær, sem dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur gripið til og lýst er hér að framan, séu fullnægjandi til þess að tryggja eðlilega framkvæmd, að því er snertir skipan lögráðamanna samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 68/1984, og að eðlilegt hafi verið að taka upp það fyrirkomulag, að rita um skipan lögráðamanna á skrá þá, sem ráðuneytinu ber að halda, sbr. 1. mgr. 8. gr. laganna. Er og eðlilegt, að slíkri skrá sé ekki aðeins ætlað það hlutverk að vera til vitnisburðar um, hverjir séu lögræðissviptir á hverjum tíma, heldur einnig að vera til réttaröryggis fyrir þá, sem hafa verið sviptir lögræði. Það eru því tilmæli mín til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, að það fylgi þeim ráðstöfunum eftir, sem það hefur gripið til, þannig að framkvæmd þessara mála verði með tryggum hætti. 3. Í lögum nr. 68/1984, ásamt síðari breytingum, kemur hvorki fram, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið skuli halda skrá um skipan lögráðamanna né heldur að úrskurðir um lögræðissviptingu skuli sendir á tryggilegan hátt, svo sem í ábyrgðarpósti, til sýslumanns. Þá kemur ekki fram í 8. gr. laganna, hvort dómari skuli senda úrskurð um lögræðissviptingu til sýslumanns í því umdæmi, þar sem hinn lögræðissvipti á lögheimili, eða þar sem úrskurðurinn gengur. Með tilliti til mikilvægis þess, að lög, sem kveða á um íhlutun um persónuréttindi manna, mæli með skýrum hætti fyrir um framkvæmd þeirra mála, tel ég að rétt, að um framangreind atriði verði tekin skýr ákvæði í lög. Mælist ég því til þess, að framangreind atriði verði tekin til athugunar við samningu frumvarps til nýrra lögræðislaga. Af þessu tilefni er athygli forseta Alþingis og dóms- og kirkjumálaráðherra vakin á máli þessu með vísan til 11. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis. IV. Samkvæmt framansögðu er niðurstaða mín sú, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hafi gripið til fullnægjandi ráðstafana til þess að leiðrétta þá meinbugi, sem hafa verið á framkvæmd og eftirliti með skipan lögráðamanna samkvæmt lögræðislögum. Ég tel ástæðu til að árétta það við ráðuneytið, að það fylgi þeim ráðstöfunum eftir, er það hefur þegar gripið til í þessu markmiði, og hafi þau sjónarmið, sem gert er grein fyrir í áliti þessu, til hliðsjónar við samningu frumvarps til nýrra lögræðislaga. Af því tilefni er athygli forseta Alþingis og dóms- og kirkjumálaráðherra vakin á máli þessu með vísan til 11. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis." V. Með bréfi, dags. 23. febrúar 1996, óskaði ég eftir því við dóms- og kirkjumálaráðherra, að mér yrðu látnar í té upplýsingar um, hvort farið hefði verið að tilmælum mínum í fyrrgreindu áliti. Í svari dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 18. apríl 1996, segir meðal annars svo: "Vinna nefndar þeirrar sem vinnur að endurskoðun lögræðislaganna er langt komin, og mun frumvarpi til nýrra lögræðislaga verða skilað síðar á þessu ári. Það skal jafnframt upplýst að í þeim drögum sem nú þegar liggja fyrir er farið að þeim tilmælum sem fram koma í framangreindu áliti yðar."