Svör við erindum. Umsóknir og ákvörðunartaka.

(Mál nr. 6746/2011)

Hinn 22. nóvember 2011 kvartaði A yfir því að hafa ekki fengið svör frá Íbúðalánasjóði við erindi sem hann sendi stofnuninni með bréfi, dags. 10. maí 2011, þar sem hann óskaði formlegrar og endanlegrar afgreiðslu sjóðsins á umsókn um breytingu á vaxtakjörum fasteignaláns. Í kvörtuninni kom fram að erindið hefði verið ítrekað 22. ágúst, 1. september, 13. október og 10. nóvember 2011.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 22. desember 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum Íbúðalánasjóðs til umboðsmanns vegna málsins kom fram að erindi A hefði verið synjað 14. desember 2011. Þar sem kvörtun A laut að því að erindinu hefði ekki verið svarað taldi umboðsmaður ekki tilefni til frekari afskipta og lauk málinu en benti A á að hann gæti skotið ákvörðuninni til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga nr. 44/1998, um húsnæðismál. Að fenginni niðurstöðu nefndarinnar gæti hann leitað til sín á ný yrði hann ósáttur við afgreiðslu nefndarinnar á máli hans.