Almennatryggingar. Lífeyristryggingar.

(Mál nr. 5919/2010)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga þar sem því var hafnað að miða réttindi hennar til örorkulífeyris og tengdra greiðslna við réttindi eiginmanns hennar, B. Kvörtunin beindist jafnframt að því að réttindi A til örorkulífeyris og tengdra greiðslna hefðu verið skert vegna búsetuskilyrða laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, og var því haldið fram að slíkt bryti í bága við jafnræðisreglu, meðalhófsreglu og ákvæði 72. og 76. gr. stjórnarskrár. Því var enn fremur haldið fram að dóttir A byggi við skert réttindi þar sem möguleikar A á að fullnægja framfærsluskyldu sinni gagnvart henni væru skertir með umræddu fyrirkomulagi.

Umboðsmaður Alþingis lauk málinu með bréfi, dags. 24. september 2010. Fyrir lá að B fékk greiddar makabætur skv. 5. gr. laga nr. 99/2007 sem ekki töldust til lífeyris samkvæmt lögum nr. 100/2007. Í ljósi þess taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar að hafna því að miða réttindi til örorkulífeyris og tengdra greiðslna við réttindi B enda lá ekki fyrir að hann hefði fengið greiddan lífeyri skv. lögum nr. 100/2007 eins og gert var að skilyrði í lokamálslið 1. mgr. 17. gr. laganna. Hvað varðaði búsetuskilyrði laga nr. 100/2007 og samræmi laga nr. 100/2007 við 72. og 76. gr. stjórnarskrár, þá benti umboðsmaður á að kvörtunin lyti að því fyrirkomulagi sem löggjafarvaldið hefði ákveðið að skyldi gilda á þessu sviði. Starfssvið umboðsmanns tæki ekki til starfa Alþingis, sbr. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 og því væri almennt ekki á verksviði umboðsmanns Alþingis að taka afstöðu til þess hvort lög sem Alþingi hefði sett væru í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar. Þá vísaði umboðsmaður til þess að á Alþingi væri fyrirhugað að flytja frumvarp um endurskoðun laga um almannatryggingar og að umboðsmanni skuldara hefði, með d-lið 2. mgr. 1. gr. laga nr. 100/2010, verið fengið það hlutverk að útbúa framfærsluviðmið og uppfæra þau reglulega. Almennt kæmu einstök mál ekki til umfjöllunar hjá umboðsmanni á meðan þau hefðu ekki verið til lykta leidd hjá stjórnvöldum og að áliti umboðsmanns hefðu álitaefni um inntak lágmarksframfærslukostnaðar ekki enn verið til lykta leidd hjá stjórnvöldum. Í ljósi þessa, sem og starfsheimilda umboðsmanns, taldi umboðsmaður ekki tilefni til þess á þessu stigi að taka umrædd atriði til athugunar á grundvelli 11. gr. laga nr. 85/1997. Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Hann ritaði hins vegar félags- og tryggingamálaráðuneytinu bréf þar sem hann benti á að þessum álitaefnum hefði verið hreyft í erindi til sín og að hann myndi fylgjast með því hvort og þá á hvern veg fjallað yrði um þessi mál í boðuðu frumvarpi til breytinga á almannatryggingalögum og eftir atvikum umfjöllun Alþingis á því frumvarpi og taka í ljósi þess afstöðu til þess hvort tilefni yrði til þess að umboðsmaður tæki stöðu þess fólks, sem sætti skerðingu á lífeyrisgreiðslum almannatrygginga vegna búsetutíma hér á landi, til athugunar í ljósi viðkomandi stjórnarskrárákvæða og fjölþjóðlegra skuldbindinga sem Ísland hefði undirgengist.