Almannatryggingar. Sjúkra- og slysatryggingar.

(Mál nr. 6036/2010)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga þar sem staðfest var synjun Sjúkratrygginga Íslands á umsókn hans um styrk til kaupa á öryggiskallkerfi. Á meðan á athugun málsins stóð barst umboðsmanni tilkynning úrskurðarnefndarinnar um að ákveðið hefði verið að endurupptaka mál A. Umboðsmaður leit því svo á að A hefði fengið leiðréttingu mála sinna og því væri ekki tilefni til þess að fjalla frekar um kvörtun hans.

Umboðsmaður Alþingis lauk málinu með bréfi, dags. 14. október 2010, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Umboðsmaður ákvað hins vegar að rita heilbrigðisráðherra bréf þar sem hann lýsti þeirri afstöðu sinni að meinbugir kynnu að vera á ákvæði kafla 2151 í fylgiskjali með reglugerð nr. 1138/2008, sem gerði það að skilyrði fyrir styrkveitingu til kaupa á öryggiskallkerfi að umsækjandi byggi einn eða samvistaraðili væri af heilsufarsástæðum ófær um að veita aðstoð, ynni utan heimilis fullan vinnudag eða væri orðinn 67 ára. Umboðsmaður taldi áhöld vera um það hvort sú takmörkun á einstaklingsbundnu mati, sem fælist í skilyrðinu, væri í samræmi við 26. gr. laga nr. 112/2008 sem gerir m.a. ráð fyrir greiðsluþátttöku þegar hjálpartæki eykur við eða viðheldur „sjálfsbjargargetu eða [auðveldar] umönnun“. Í því sambandi benti umboðsmaður á að aðstæður fólks, s.s. alvarleiki fötlunar þess eða aðstæður maka, þótt heimavinnandi væri undir 67 ára aldri, gætu verið æði mismunandi. Í máli A hefði eiginkona hans t.d. hætt að vinna til að geta annast hann en þyrfti engu að síður að sinna ýmsum verkefnum utan heimilisins. Í bréfinu kom umboðsmaður þeirri ábendingu á framfæri að rétt væri að heilbrigðisráðuneytið tæki afstöðu til þess hvort og þá hvaða breytingar þyrfti að gera á ákvæðinu að virtu ákvæði 26. gr. laga nr. 112/2008 og nánar tilgreindum sjónarmiðum.

Með bréfi heilbrigðisráðuneytisins til mín, dags. 28. desember 2010, var upplýst um að með reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 1138/2008, um styrki vegna hjálpartækja, hefði nýjum málslið verið bætt við 1. tölul. 1. mgr. í flokknum 2151 Viðvörunarkerfi Öryggiskallkerfi og nú kæmi fram í reglugerðinni að frá skilyrðinu um að umsækjandi verði að búa einn megi víkja ef umsækjandi býr við svo mikla fötlun að hann getur ekki hringt í síma eða farsíma.