Mannréttindi. Félagafrelsi. Stjórnarskrá. Skylduaðild að Félagi löggiltra endurskoðenda.

(Mál nr. 6149/2010)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og vísaði til fyrri athugunar setts umboðsmanns (mál nr. 5559/2010) á skylduaðild að Félagi löggiltra endurskoðenda. Þeirri athugun lauk settur umboðsmaður í ljósi þess að fjármálaráðuneytið tilkynnti um að það hygðist taka lög nr. 79/2008 til endurskoðunar þar sem umdeilt væri í málinu hvort skylduaðildar væri þörf í ljósi þeirra verkefna sem félaginu væri falið samkvæmt lögum. A gerði athugasemdir við að enn væru ekki nokkur merki þess að verið væri að endurskoða lögin.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 13. október 2010. Í skýringum efnahags- og viðskiptaráðuneytisins kom fram að ráðuneytið hefði 31. ágúst 2010 skipað nefnd um málefni endurskoðenda. Í skipunarbréfi nefndarinnar kæmi fram, m.a. fram að nefndinni væri ætlað að taka til skoðunar skylduaðild endurskoðenda að Félagi löggiltra endurskoðenda. Nefndinni væri ætlað að skila ráðuneytinu áliti 15. desember 2010. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna málsins og lauk meðferð sinni á erindinu.