Málsmeðferð stjórnvalda. Málshraðareglan. Ríkisborgararéttur.

(Mál nr. 5652/2009)

A kvartaði yfir ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um að synja sér um íslenskan ríkisborgararétt á þeim grundvelli að hún uppfyllti ekki á þeim tíma skilyrði 6. tölul. 9. gr. laga nr. 100/1952, um íslenskan ríkisborgararétt, þ.e. það skilyrði laganna að hafa ekki, hérlendis eða erlendis, sætt sektum eða fangelsisrefsingu eða eiga ólokið máli í refsivörslukerfinu þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi samkvæmt íslenskum lögum. Settur umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 29. janúar 2010.

A hafði lagt fram umsókn um íslenskan ríkisborgararétt 15. nóvember 2007 en hlotið 10.000 kr. sekt fyrir umferðarlagabrot 30. apríl 2008, á meðan umsókn hennar var enn til athugunar í ráðuneytinu. Meðan á meðferð málsins stóð barst settum umboðsmanni bréf frá ráðuneytinu um að A hefði verið veittur íslenskur ríkisborgararéttur. Settur umboðsmaður taldi því ekki tilefni til frekari athugunar málsins af sinni hálfu og lét málinu lokið með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Hann ritaði ráðuneytinu þó bréf þar sem m.a. kom fram að það eitt að ráðuneytið hefði almennt ekki náð að senda mál umsækjenda um íslenskan ríkisborgararétt til umsagnar fyrr en tveimur mánuðum eftir að umsóknir bárust nægði ekki til að skilyrðum 2. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga teldist fullnægt. Þá kom fram að settur umboðsmaður teldi ráðuneytið ekki hafa sýnt sér fram á að umsagnar Útlendingastofnunar og ríkislögreglustjórans um umsókn A hefði verið leitað við fyrsta hentugleika. Settur umboðsmaður taldi jafnframt að af gögnum málsins yrði ekki ráðið að sú athugun, sem lægi til grundvallar umsögn ríkislögreglustjóra um hverja umsókn um íslenskan ríkisborgararétt, væri almennt það flókin eða umfangsmikil að þörf hefði verið á því að veita ríkislögreglustjóranum almennan fjögurra mánaða frest til að senda ráðuneytinu umsögn. Þá yrði ekki ráðið af gögnum málsins að mál A hefði verið þess eðlis að réttlætt hefði svo langan umsagnartíma af hálfu ríkislögreglustjórans. Í því sambandi tók settur umboðsmaður fram að þegar stjórnvald veitti umsagnaraðila svo rúman frest til að veita umsögn hvíldi enn ríkari skylda á stjórnvaldinu til að grípa til ráðstafana bærist umsögnin ekki innan veittra tímamarka. Að áliti setts umboðsmanns hefði það ekki verið í samræmi við grundvallarreglu 9. gr. stjórnsýslulaga að ítreka umsagnarbeiðnir almennt ekki fyrr en tveimur mánuðum eftir að umsagnarfrestur rynni út. Að lokum kom settur umboðsmaður þeirri ábendingu á framfæri að upplýsingar, sem stjórnvald veitti um almennan afgreiðslutíma mála, gæti ekki vikið til hliðar þeim lágmarkskröfum sem gerðar væru í 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga um að ákvarðanir í málum skyldu teknar svo fljótt sem verða mætti.