Málsmeðferð stjórnvalda. Málshraðareglan. Lögreglurannsókn.

(Mál nr. 5980/2010)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis með kvörtun sem laut að embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum og embætti ríkissaksóknara vegna meðferðar og rannsóknar sakamála sem tengdust atburðarás er lyktaði með handtöku A. A gerði ýmsar athugasemdir við framgöngu lögreglunnar gagnvart sér á vettvangi handtökunnar og í kjölfar hennar, sem og við rannsókn og meðferð embættisins á atburðunum. Einnig gerði hann athugasemdir við málsmeðferð ríkissaksóknara á kæru hans á hendur lögreglumönnum við embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum. Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 14. október 2010.

Af gögnum málsins varð ekki annað ráðið en að sú háttsemi og þær ákvarðanir sem kvörtun A beindist að hefðu átt sér stað á tímabilinu 27. janúar 2007 til 17. mars 2009. Kvörtun A barst umboðsmanni 31. mars 2010. Því fékk umboðsmaður ekki séð að skilyrði 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, væri fullnægt þar sem liðið var meira en eitt ár frá því að umræddir stjórnsýslugerningar voru til lykta leiddir. Umboðsmaður lauk því málinu með bréfi, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Hann ákvað hins vegar að rita ríkissaksóknara bréf vegna dráttar sem varð á rannsókn málsins hjá embættinu og fólst í því að kæra A á hendur hóps tilgreindra einstaklinga, sem var framsend ríkissaksóknaraembættinu, var ekki send lögreglustjóraembættinu til frekari rannsóknar fyrr en 22 mánuðum síðar. Umboðsmaður gat ekki dregið aðra ályktun af gögnum málsins en að meginástæða þess að sök hefði fyrnst í málinu hefði verið dráttur málsins hjá ríkissaksóknara og taldi því ástæðu til að koma þeirri ábendingu á framfæri við embættið að huga framvegis betur að þeirri sértæku málshraðareglu sem fælist í niðurlagi 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.