Nauðungarvistun á sjúkrahúsi. Mannréttindi. Meinbugir á lögum. Staðfesting héraðsdóms að gerð hafi verið krafa um sjálfræðissviptingu.

(Mál nr. 928/1993)

Í tilefni af kvörtun A um nauðungarvistun hans á geðdeild Landspítala ákvað umboðsmaður að taka til athugunar hvernig háttað væri meðferð beiðna um nauðungarvistun hjá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Tók umboðsmaður það m.a. til athugunar, hvort ráðuneytið hefði eftirlit með málum þeirra manna sem úrskurðaðir hefðu verið í nauðungarvistun samkvæmt 3. mgr. 13. gr. lögræðislaga, eftir að nauðungarvistun lyki samkvæmt 19. gr. laganna, en slík nauðungarvistun má að hámarki standa í 15 sólarhringa, nema gerð sé krafa fyrir dómi um að viðkomandi verði sviptur sjálfræði. Þá tók umboðsmaður það til athugunar, hvort dómstólar tilkynntu læknum geðdeilda um að beiðni hefði borist um varanlega lögræðissviptingu einstaklings, sem sætti nauðungarvistun vegna geðsjúkdóms. Í máli A hafði gætt misskilnings aðstandenda A um það, hvert beina skyldi kröfu um lögræðissviptingu, og hafði krafa þeirra um lögræðissviptingu ekki verið tekin fyrir hjá héraðsdómi, en þeim vísað til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, sem vísaði kröfunni frá sér, þar sem A sætti þá þegar nauðungarvistun samkvæmt úrskurði ráðuneytisins. Benti umboðsmaður á, að dóms- og kirkjumálaráðuneytinu hefði borið að gæta þess lagaskilyrðis 2. mgr. 16. gr. lögræðislaga að tilkynna, að vistun yrði ekki heimiluð. Umboðsmaður rakti ákvæði lögræðislaga um ákvarðanir dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um nauðungarvistun, en ákvörðunin skal vera skrifleg og tilkynnt þeim sem beiðni bar fram. Ef beiðnin er samþykkt skal hún einnig tilkynnt yfirlækni á hlutaðeigandi stofnun. Í lögræðislögum eru hins vegar ekki ákvæði um tilkynningu til yfirlæknis, að krafa hafi verið gerð fyrir dómi um sjálfræðissviptingu manns, sem vistaður hefur verið á sjúkrahúsi. Af bréfi dómstjórans í Reykjavík var ljóst, að ekki var föst framkvæmd á því, að læknum væri tilkynnt um beiðni um sjálfræðissviptingu sjúklings, sem vistaður væri á sjúkrahúsi, enda væri ekki mælt fyrir um slíka framkvæmd í lögræðislögum. Umboðsmaður taldi að sú framkvæmd væri á engan hátt fullnægjandi, eða í samræmi við réttaröryggi sjúklinga, að það hvíldi á aðstandendum að tilkynna yfirlæknum spítala, að krafa hefði verið gerð fyrir dómi um sjálfræðissviptingu. Taldi umboðsmaður tryggara að setja það skilyrði fyrir áframhaldandi vistun sjúklinga að yfirlækni hefði borist staðfesting frá héraðsdómi um að slík krafa hefði verið gerð. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að það athugaði, hvort ekki væri ástæða til að mæla fyrir um þetta atriði í lögræðislögum. Þá beindi umboðsmaður þeim tilmælum til ráðuneytisins að það fylgdi eftir þeim ráðstöfunum, sem það hafði þegar gripið til, til að tryggja að mál þessi væru í löglegu horfi, og að það tæki við undirbúning nýrra lögræðislaga tillit til þeirra sjónarmiða sem rakin voru í álitinu.

I. Hinn 9. nóvember 1993 leitaði til mín A, og var þá staddur á deild 33A, geðdeild Landspítalans. Fram kom hjá A, að einhver ættingi hans hefði óskað eftir því, að hann yrði vistaður á deildinni. Í framhaldi af símtali þessu átti ég tal við skrifstofustjóra í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og fékk þær upplýsingar, að beiðni um nauðungarvistun A hefði verið lögð fram 4. september 1993. Nýrri beiðni um nauðungarvistun hefði verið synjað 17. september 1993, en þá hefði komið fram, að beiðni um nauðungarvistun hefði verið lögð fram hjá Héraðsdómi Reykjavíkur. Þá ræddi ég einnig við skrifstofustjóra Héraðsdóms Reykjavíkur. Upplýsti hann, að fulltrúi í Héraðsdómi Reykjavíkur hefði tekið við beiðni um sjálfræðissviptingu A 4. nóvember 1993, dags. 3. nóvember 1993. Ennfremur kom fram, að systir A hefði komið í Héraðsdóm Reykjavíkur 14. september 1993 með beiðni um að svipta A sjálfræði. Hún hefði aftur á móti hætt við að leggja fram beiðnina og farið með hana í dóms- og kirkjumálaráðuneytið. Móðir A hefði síðan lagt fram beiðni um sjálfræðissviptingu 4. nóvember 1993 og hefði beiðnin verið dómtekin þann dag. Í framhaldi af framangreindum upplýsingum ákvað ég hinn 10. nóvember 1993 að taka mál þetta til athugunar að eigin frumkvæði, með vísan til 1. mgr. 5. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis. II. Ég ritaði yfirlækni deildar 33A, geðdeildar Landspítalans, bréf 10. nóvember 1993 og óskaði, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, eftir gögnum og skýringum um vistun A. Sérstaklega óskaði ég eftir að fram kæmi, á hvaða lagagrundvelli hefði verið ákveðið að vista A á geðdeildinni frá 18. september til 4. nóvember 1993. Ég ritaði einnig dómstjóranum í Reykjavík bréf 10. nóvember 1993 og óskaði eftir gögnum og upplýsingum um, hvenær beiðni um sjálfræðissviptingu A hefði verið lögð fram. Svar yfirlæknis á geðdeild Landspítalans barst mér 8. desember 1993. Segir þar meðal annars: "[A] var innlagður á deild 33-A í kjölfar fundar í áfengisskor þ. 2. september 1993. Niðurstaða fundarins var sú, að [A] hefði aldrei þau sjö ár, sem hann hefði haft greininguna geðklofa, verið rannsakaður til fullnustu, eða fengið þá meðferð og möguleika til endurhæfingar, sem flestir sjúklingar með þessa greiningu fá og eiga heimtingu á. [A] kom á göngudeildina þennan dag og hafði í frammi mikinn ofstopa þar sem og annars staðar dagana á undan. Hafði oftar en einu sinni þurft að kalla til lögreglu. Hann var síðan lagður inn á 48 klukkustunda reglunni. Haft hafði verið samband við móður [A], [...], dagana á undan og lýsti hún sig reiðubúna til þess að leggja inn hjá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu beiðni um leyfi til nauðungarvistunar [A] í allt að 15 sólarhringa (samkv. 13. gr., sbr. 14. og 15. gr. lögræðislaga nr. 68/1984). Hún þurfti þó að gera sér sérstaka ferð til þess í bæinn úr Hveragerði, en þar var hún stödd á heilsuhæli til að leita sér lækninga vegna heilsubrests. Henni var strax á því stigi gert ljóst, að [A] myndi þurfa langtímainnlögn, svo hægt yrði að koma við þeim rannsóknum, þeirri meðferð og endurhæfingu, sem til stæði að reyna, og yrði það ekki hægt, nema með sjálfræðissviptingu til lengri tíma í kjölfar 15 sólarhringa nauðungarvistunar með leyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Var hún mjög fylgjandi þessari áætlun og sagðist ætla að taka fullan þátt í henni. Á þessu stigi málsins var einnig rætt við hana um það hvort hún vildi jafnframt taka að sér að verða lögráðamaður [A]. Hún vildi taka það að sér, enda sagðist hún ekki vita um neinn ættingja annan, sem myndi vilja sinna því hlutverki. Leyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til nauðungarvistunar [A] barst svo 4. september og hófust rannsóknir á honum og meðferð þá strax. Sérfræðingur sá, er umsjón hafði með rannsóknum og meðferð hjá [A], reyndi árangurslaust alla vikuna 8.-15. september sl. allt sem unnt var til þess að ná tali af [móður hans] með það fyrir augum að leiðbeina henni um framhaldið. Hún var þá útskrifuð af heilsuhælinu í Hveragerði og farin norður í land. Ekkert hinna sex barna hennar vissi hvar hana var að finna, eða hvernig ná mætti sambandi við hana. Þá þegar var búið að kosta til 250 þúsund krónum í fimmtán daga legu [A], þ.e. í extravaktir, spítalalegu, rannsóknir o.s.frv. Það varð úr eftir fjölda símtala, að þær [C] og [D], systur [A], tækju að sér það hlutverk, sem móðir þeirra hafði ætlað sér, nefnilega að leggja fram til Héraðsdóms beiðni um varanlega sviptingu sjálfræðis hjá [A], enda lítill tími til stefnu. Systurnar voru mjög tregar til þessa og mjög tvístígandi, þótt þær sæju þá, sem og áratugina á undan, að bróðir þeirra væri fárveikur og þyrfti að vera á sjúkrahúsi. Lagði umsjónarlæknir [A] mikla vinnu í að undirbúa þær og útskýra fyrir þeim málið. Þeim var gert ljóst, að þær þyrftu ekki að gera neitt annað en að leggja fram beiðnina, þyrftu t.d. ekki að verða lögráðamenn hans. Þær fengu skriflegar leiðbeiningar um öll formsatriði og það, hvert þær ættu að fara, hvað þær ættu að biðja um, en einnig um það, að þær yrðu nauðsynlega að koma til baka á deild 33-A með stimpluð ljósrit frá Héraðsdómi af beiðninni um sjálfræðissviptingu. Sérstök áhersla var lögð á þetta atriði þar sem læknar deildarinnar höfðu lent í því, oftar en einu sinni, að þurfa að senda Héraðsdómi í símbréfi öll gögn (með stimplum þeirra á) varðandi sjúklinga, vegna þess að gögn týndust hjá dómstólnum [...]. Í öðrum tilvikum hafa gögn verið send í símbréfi af sömu ástæðum og að framan greinir án þess að aðrir væru til vitnis um það en starfsfólk deildarinnar. Systrunum var gerð rækileg grein fyrir því að læknar deildar 33-A hefðu ekki heimild til þess að halda [A] áfram á deildinni umfram þessa 15 daga, nema gengið væri frá beiðni um varanlega sviptingu fyrir helgina 17.-20. september sl. Sérfræðingur sá, er hafði umsjón með rannsókn og meðferð [A] á deild 33-A geðdeildar Landspítalans, var staddur á lækningastofu sinni [...] eftir hádegi föstudaginn 17. september sl. Þangað hringdi deildarlæknir deildar 33-A um þrjúleytið og sagði umsjónarlækni [A] að fulltrúi dómsmálaráðuneytisins hefði hringt og tæki ekki í mál að ráðuneytið gæfi aftur út leyfi til fimmtán sólahringa nauðungarvistunar sjúklingsins. Umsjónarlæknir [A] gerði deildarlækni 33-A ljóst, að hann hefði ekki beint systrum [A] þangað og hlyti því að vera um einhvern misskilning að ræða. Umsjónarlæknir [A] hringdi þegar í Héraðsdóm og ræddi við [...], fulltrúa þar og spurði hvort beiðni hefði verið lögð fram um varanlega sjálfræðissviptingu [A], sjúklings á deild 33-A geðdeild Landspítalans. Hún staðfesti við lækninn í síma að svo [v]æri. Hringdi umsjónarlæknir [A] þá aftur í deildarlækni 33-A og sagði honum að pappírarnir hefðu verið lagðir fram í Héraðsdómi og því væri heimilt að halda honum áfram á deildinni. Systur [A] komu aldrei á deildina með stimplaða pappíra úr Héraðsdómi. Vakti það hvorki sérstaka athygli lækna deildarinnar né olli þeim áhyggjum meðal annars vegna þess, hve tregar þær voru til að skipta sér af málum bróður síns og ekki síst af þeirri ástæðu, að í þessu tilviki hafði umsjónarlæknir [A] persónulega fengið það staðfest með símtali, að beiðnin hefði borist Héraðsdómi. Læknar deildarinnar hafa og átt því að venjast, að engir pappírar berist frá Héraðsdómi nema sérstaklega sé gengið eftir þeim og aðstandendur sjúklinga reknir fram og aftur. [A] bað um verjanda í máli sínu, [héraðsdómslögmann], á Selfossi. Ræddi hann fyrst við sjúklinginn þann 22. september 1993, að beiðni umsjónarlæknis [A], og síðan aftur þann 8. nóvember 1993. Systur [A] höfðu ekkert samband við deild 33-A vikurnar eftir 17. september og ekkert sérstakt tilefni gafst til að hafa samband við þær. Til dæmis varð fjölskylduviðtölum ekki við komið á þessu stigi þar sem sjúklingurinn var bráðgeðveikur á fullri gát með 24 klukkustunda hjúkrun, ekki viðræðuhæfur og mjög ofstopafullur. Það er reynsla lækna deildarinnar, að sjálfræðissviptingarmál fyrir Héraðsdómi eru ekki tekin í dóm fyrr en 4-12 vikum eftir að gögn hafa verið lögð fram og dæmi eru um að enn lengri tími hafi liðið. Var því rannsókn og meðferð sjúklings haldið áfram. Umsjónarlæknir [A] dvaldi síðan erlendis frá 6. til 12. október og aftur frá 15. til 28. október. Lögfræðingur sjúklings fór einnig erlendis um líkt leyti. Í októbermánuði tókst sjúklingi að fara á bak við starfsfólk deildarinnar og hrækja út úr sér lyfjum þeim, er hann átti að taka. Varð hann aftur mjög veikur fljótlega eftir að umsjónarmaður hans kom til baka. Lyfjamælingar sýndu að hann hafði ekki tekið lyfin. Þegar ekkert heyrðist af sjálfræðissviptingarmáli [A] frá Héraðsdómi hafði umsjónarlæknir hans sjálfur samband þangað í lok októbermánaðar til þess að vita hverju sætti og reka á eftir. Reyndar var sjúklingur þá svo langt úti í eigin ranghugmyndum vegna þess hve mjög honum hafði versnað við að hætta lyfjatöku, að hann hefði lítt getað nýtt sér að mæta fyrir dómi og tala sínu máli. Umsjónarlæknir [A] talaði fyrst við einhvern fulltrúa í Héraðsdómi, er leitaði dyrum og dyngjum að beiðninni, sem ekki fannst. Kom það umsjónarlækni ekki á óvart því slíkt hafði komið fyrir áður. [Skrifstofustjóri Héraðsdóms Reykjavíkur] hafði síðan sambandi við umsjónarlækni [A], þann 28. október sl., og tjáði honum að engin beiðni fyndist. Umsjónarlæknir [A] sagði honum að hann hefði persónulega rætt við einn fulltrúa hans föstudaginn 17. september og hefði fulltrúinn staðfest, að beiðnin hefði komið fram. Hlyti hún að vera þarna einhvers staðar. Þetta hefði oft komið fyrir áður. Því miður gæti umsjónarlæknirinn ekki í þessu tilviki, eins og stundum áður, sent til þeirra skjölin í símbréfi með stimplum þeirra á, vegna þess, að aðstandendur [A] hefðu aldrei komið með þau til deildarinnar. [Skrifstofustjóri Héraðsdóms Reykjavíkur] kannaði málið og rifjaðist þá upp fyrir honum nokkrum dögum síðar, að hann hefði sjálfur talað við þessar tvær konur og hefði þeim snúist hugur í viðtalinu við hann og ekki lagt fram beiðnina. Móðir [A] kom í tvígang í heimsókn á deild 33-A á tíu daga tímabili í lok októbermánaðar og byrjun nóvember. Hann réðst að henni í bæði skiptin með líflátshótunum og lagði á hana hendur. Þegar ljóst varð, að engin beiðni um sjálfræðissviptingu hafði verið lögð fram í Héraðsdómi, var [...], móðir [A], beðin um að ganga frá beiðninni við Héraðsdóm, sem hún og gerði. Í samráði við og að ráðum [skrifstofustjóra Héraðsdóms Reykjavíkur] var ekki farið aftur með beiðni um 15 sólarhringa nauðungarvistun í dómsmálaráðuneytið heldur gengið beint frá pappírum um varanlega sjálfræðissviptingu. Þar sem augljóst var, að móður sjúklingsins gat stafað bráð lífshætta af honum var [A] haldið hér á sjúkrahúsinu samkvæmt neyðarreglu þar til hún hafði gengið frá sjálfræðissviptingarpappírum við Héraðsdóm. [A] hefur nú verulega tekið við sér og er farinn að svara meðferð vel. Til þess að svara beint þeirri spurningu yðar, herra umboðsmaður Alþingis, "á hvaða lagagrundvelli hafi verið ákveðið að vista [A] á geðdeild Landspítalans tímabilið 18. september s.l. til 4. nóvember s.l." þá var [A] vistaður á geðdeild Landspítalans umrætt tímabil, að nokkru leyti á grundvelli 2. málsgreinar 13. greinar, en þó aðallega á grundvelli 2. málsgreinar 19. greinar Lögræðislaga nr. 68/1984. Þar urðu þó formgallar á vegna þess hörmulega misskilnings, sem ítarlega hefur verið rakinn og gerð grein fyrir hér að framan. Í ljósi reynslu undanfarinnar þriggja ára, nefnilega reynslu þess, hve illa gengur með skilaboð á milli lögformlegra yfirvalda (aðallega Héraðsdóms) og spítalans hafa læknar deildar 33-A á geðdeild Landspítalans útbúið eigin eyðublöð (sýnishorn fylgir með þessu bréfi) til þess að nota hér eftir í þeim tilgangi að fyrirbyggja, að handvömm og misskilningur verði til þess sjúklingum verði haldið ólöglega á sjúkrahúsinu. Á eyðublöðunum er aðstandendum gert ljóst, að sjúklingum verði ekki haldið á deild 33-A lengur en dómsmálaráðuneytið hefur heimilað nema eyðublað C hafi borist deildinni." Með bréfi dómstjórans í Reykjavík, dags. 16. nóvember 1993, bárust mér ljósrit af beiðni um sjálfræðissviptingu A, dags. 3. nóvember 1993, svo og ljósrit úr þingbók héraðsdóms Reykjavíkur, þar sem fram kemur, að málið var þingfest sama dag. Ég ritaði dóms- og kirkjumálaráðherra bréf 16. desember 1993 og óskaði eftir því, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið léti mér í té gögn og upplýsingar um nauðungarvistun A, samkvæmt úrskurði ráðuneytisins 4. september 1993, og skýrði viðhorf sitt til málsins. Sérstaklega óskaði ég eftir upplýsingum um, hvort ráðuneytið hefði á einhvern hátt eftirlit með málum þeirra manna, sem úrskurðaðir hefðu verið í nauðungarvistun samkvæmt 3. mgr. 13. gr. lögræðislaga nr. 68/1984, eftir að nauðungarvistun lyki samkvæmt 19. gr. sömu laga. Svar ráðuneytisins barst mér með bréfi 13. maí 1994 og segir þar meðal annars: "I. Viðhorf ráðuneytisins til nauðungarvistunar [A], samkvæmt heimild í 3. mgr., sbr. 2. mgr. 13. gr. lögræðislaga. Hinn 4. september 1993 barst ráðuneytinu beiðni móður [A], [...], um samþykki ráðuneytisins til nauðungarvistunar hans skv. 13. gr. lögræðislaga, á grundvelli geðsjúkdóms hans. Beiðninni fylgdi læknisvottorð [E], geðlæknis, dags. 2. september 1993, þar sem gerð var grein fyrir sjúkdómi sjúklings og nauðsyn vistunar. Sama dag og ráðuneytinu barst beiðni um nauðungarvistun, þ.e. þann 4. september 1993, veitti ráðuneytið samþykki sitt til vistunar [A] til meðferðar á sjúkrahúsi á grundvelli 13. gr. lögræðislaga, í bréfi til yfirlækna geðdeildar Landspítalans, deild 33A. Hinn 17. september 1993 barst ráðuneytinu síðan ný beiðni um nauðungarvistun [A], nú frá systur hans, [C]. Í beiðni þessari var vísað til vottorðs [F], geðlæknis. Það læknisvottorð fylgdi ekki beiðninni, en hins vegar fylgdi ljósrit af framangreindu vottorði [E], geðlæknis, dags. 2. september 1993. Að tilefni beiðni [C] hafði starfsmaður ráðuneytisins símasamband við geðlækni á deild 33A þann 17. september 1993 og tjáði honum að lagaheimild skorti til þess að ráðuneytið gæti samþykkt nauðungarvistun þessa, þar sem 15 sólarhringa frestur sá, er ráðuneytið hefði veitt heimild sína til að halda mætti sjúklingnum nauðugum á sjúkrahúsi, samkvæmt fyrrgreindu bréfi frá 4. september 1993, væri þá ekki liðinn. Auk þess fylgdi beiðninni ekki fullnægjandi læknisvottorð, sbr. 15. gr. laganna. Var lækninum sérstaklega kynnt ákvæði 19. gr. lögræðislaga. Skömmu síðar þann sama dag hringdi [F], geðlæknir, í starfsmann ráðuneytisins og greindi frá því, að um misskilning hefði verið að ræða hjá systur sjúklings, er síðari beiðni um nauðungarvistun [A] var lögð fram í ráðuneytinu, þar sem ættingjar hans hefðu fyrr um daginn gert kröfu í héraðsdómi Reykja- víkur um að sjúklingurinn yrði sviptur sjálfræði sínu. Í ljósi þessa taldi starfsmaður ráðuneytisins ekki þörf á að tilkynna systur sjúklingsins að eigi væru lagaskilyrði til þess að verða við beiðni hennar, þar sem talið var að [F], geðlæknir, hefði þegar gert það. Með vísun til ofanritaðs telur ráðuneytið að réttilega hafi verið staðið að afgreiðslu beiðna um nauðungarvistanir [A] af hálfu ráðuneytisins að öðru leyti en því, að rétt hefði verið að tilkynna [C] með bréfi, að lagaskilyrði hafi skort til að verða við beiðni hennar um nauðungarvistun sjúklingsins. II. Nauðungarvistun [A] á sjúkrahúsi eftir að heimild ráðuneytisins til nauðungarvistunar hans, sbr. bréf ráðuneytisins frá 4. september 1993, lauk. Samkvæmt 19. gr. lögræðislaga má vistun manns í sjúkrahúsi á grundvelli 3. kafla laganna eigi haldast lengur gegn vilja hans en nauðsyn krefur. Vistun lýkur þegar yfirlæknir telur hennar ekki lengur þörf og eigi síðar en 15 sólarhringum frá því hún hófst, nema áður hafi verið gerð krafa fyrir dómi um að hann verði sviptur sjálfræði. Samkvæmt því er fram kemur í bréfi [G] yfirlæknis á geðdeild Landspítalans frá 25. nóvember 1993, virðast yfirlæknar deildarinnar hafa staðið í þeirri trú, að áður en títtnefndur 15 sólarhringa frestur var liðinn hefðu aðstandendur sjúklingsins lagt fram kröfu í héraðsdómi Reykjavíkur um að hann yrði sviptur sjálfræði sínu. Ráðuneytið telur, að ekki sé nægilegt að fyrir liggi yfirlýsing aðstandenda um að krafa um sjálfræðissviptingu hafi verið gerð, til þess að halda megi sjúklingi nauðugum á sjúkrahúsi eftir að 15 sólarhringa fresturinn er liðinn. Nauðsynlegt sé að sjúkrahúsi hafi borist staðfesting dómstóls á því, að krafa hafi verið gerð. Var þessari skoðun ráðuneytisins m.a. lýst á fundum starfsmanns ráðuneytisins og trúnaðarlæknis ráðuneytisins, [G], prófessor, á fundum þeirra með yfirlæknum og öðru hjúkrunarfólki á geðdeild Landspítalans og Borgarspítalans í janúar og febrúar 1993, sem gerð er grein fyrir í bréfi ráðuneytisins til yðar frá 26. febrúar 1993 í málinu nr. 627/1992. Af tilefni bréfs yðar frá 16. desember sl. vegna máls [A] boðaði ráðuneytið trúnaðarlækni ráðuneytisins á fund í febrúarmánuði sl. Á fundinum var m.a. lögð áhersla á að hann brýndi yfirlækna geðdeildanna á nauðsyn þess að fyrir lægi staðfesting dómstóls, eins og að ofan greinir, áður en tekin yrði ákvörðun um að halda sjúklingi nauðugum í sjúkrahúsi eftir að heimild ráðuneytisins til nauðungarvistunar skv. 13. gr. laganna rennur út. Þá var ákveðið að halda á ný fræðslufundi með yfirlæknum og öðru hjúkrunarfólki deildanna. Um fund þennan er að öðru leyti vísað til minnisblaðs starfsmanns ráðuneytisins frá 12. maí 1994/DP. Af tilefni þess, herra umboðsmaður, að þér óskið sérstaklega eftir upplýsingum um, hvort ráðuneytið hafi á einhvern hátt eftirlit með málum þeirra manna, sem vistaðir hafa verið nauðungarvistun skv. 3. mgr. 13. gr. lögræðislaga, eftir að frestir samkvæmt 19. gr. laganna eru liðnir, tekur ráðuneytið fram eftirfarandi. Eins og fram kemur í 19. gr. lögræðislaga má vistun manns í sjúkrahúsi skv. 3. kafla laganna ekki haldast lengur gegn vilja hans en nauðsyn krefur og skal vistun ljúka þegar yfirlæknir telur hennar ekki lengur þörf, og eigi síðar en 15 sólarhringum frá því hún hófst, nema áður hafi verið gerð krafa fyrir dómi um að hann verði sviptur sjálfræði. Það er því yfirlæknis á stofnun þeirri er sjúklingur er vistaður á, að meta þörf nauðungarvistunar, og á hans ábyrgð er sjúklingur er vistaður gegn vilja sínum lengur en þörf krefur. Að liðnum 15 sólarhringum frá dagsetningu heimildarbréfs ráðuneytisins skv. 13. gr. laganna ber yfirlækni að sjá til þess að sjúklingi verði ekki haldið lengur nauðugum á sjúkrahúsi, nema staðfesting hafi borist frá dómi um að krafa hafi verið gerð um sviptingu sjálfræðis hans, eins og að framan er getið. Ráðuneytið hefur ekki og telur sér ekki skylt, að hafa eftirlit með því hvenær einstakur sjúklingur, sem ráðuneytið hefur veitt heimild sína til að vistaður verði nauðungarvistun, yfirgefur sjúkrahús. Telur ráðuneytið ákvörðun þar að lútandi alfarið í höndum viðkomandi yfirlæknis og á hans ábyrgð. Ráðuneytið hefur hins vegar, eins og að framan er vikið að og fram kemur í bréfi ráðuneytisins til yðar frá 26. febrúar 1993 í málinu nr. 627/1992, kynnt yfirlæknum og öðru hjúkrunarfólki á geðdeildum Landspítalans og Borgarspítalans rækilega ákvæði 3. kafla lögræðislaga, með sérstakri áherslu á 13., 18. og 19. gr. laganna. Fyrirhugað er að endurtaka fræðslufundi starfsmanns ráðuneytisins og trúnaðarlæknis ráðuneytisins með yfirlæknum og öðru hjúkrunarfólki þessara stofnana á hausti komanda. - - - Af tilefni erindis yðar, herra umboðsmaður, vill ráðuneytið taka fram, að það telur ákvæði núgildandi lögræðislaga nr. 68/1984 með síðari breytingum þurfa endurskoðunar við. Af því tilefni skipaði dómsmálaráðherra nefnd hinn 15. mars 1993 til þess að semja frumvarp til nýrra lögræðislaga. Störf nefndarinnar hafa því miður legið niðri um hríð vegna mikilla anna þeirra sem í nefndinni eiga sæti, en þau munu verða tekin upp svo fljótt sem við verður komið. Þá telur ráðuneytið að reglur til fyllingar ákvæðum 3. kafla lögræðislaga skorti. Þar sem ekki er að finna heimild í lögunum til setningar reglugerðar um þessi efni hefur dómsmálaráðuneytið tekið upp samstarf við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið til þess að kanna hvort unnt sé á grundvelli laga, er undir það heyra, að setja slíkar reglur. Á meðfylgjandi minnisblaði frá 10. maí 1994/DP, má sjá hvað einkum hefur verið fjallað um í þessu skyni. Ráðuneytið biðst að lokum velvirðingar á því, herra umboðsmaður, hve dregist hefur að svara erindi yðar, sem einkum stafar af því, að ráðuneytið hafði gert sér vonir um að geta tilkynnt yður í bréfi þessu um setningu þeirra reglna er að framan greinir, en þar sem þær hafa ekki enn verið settar, mun yður verða tilkynnt sérstaklega um niðurstöður samstarfs dómsmálaráðuneytisins og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, er þær liggja fyrir." Ég ritaði dómstjóranum í Reykjavík bréf 8. ágúst 1994 og óskaði eftir því, með vísan til 7. gr. laga nr. 13/1987, að hann léti mér í té upplýsingar um það, hvort og með hvaða hætti læknum geðdeilda væri tilkynnt, að beiðni um sjálfræðissviptingu einstaklings, vegna geðsjúkdóms, hefði borist Héraðsdómi Reykjavíkur. Svar dómstjórans í Reykjavík barst mér með bréfi, dags. 15. ágúst 1994. Þar segir meðal annars: "Frá því á fyrri hluta árs 1993 hefur það verið regla í Héraðsdómi Reykjavíkur, ef beðið er um að sjúklingur, sem lagður hefur verið inn á geðdeild gegn vilja sínum, verði sviptur sjálfræði, er lögræðismál þingfest jafnskjótt og beiðni um það berst, eða þegar næst til þess er beiðnina setur fram hafi hann ekki sjálfur afhent hana. Var þessi regla tekin upp þar sem réttara þótti að miða túlkun á niðurlagi 2. mgr. 19. gr. laga nr. 68/1984 við þingfestingu máls fremur en framlagningu beiðnar um sjálfræðissviptingu á skrifstofu dómstólsins. Viðkomandi fær endurrit af fyrirtökunni strax að henni lokinni og verður að gera ráð fyrir að hann afhendi endurritið lækni þess manns er beiðnin varðar. Af hálfu dómstólsins er ekki sérstaklega með því fylgst, enda verður ekki séð af lögum nr. 68/1984 að dómstóli sé skylt að tilkynna lækni um að beiðni af þessu tagi hafi borist dómstólnum, og það hefur ekki verið gert. Að sjálfsögðu er yfirlýsing um það gefin, sé þess óskað. Í tilviki [A] er beiðni dags. 3. nóvember 1993, undirrituð af móður hans, [...]. Málið er þingfest sama dag. Ljósrit af beiðni og fyrirtöku málsins á dómþingi fylgja þessu bréfi. Gera verður ráð fyrir því að [móðir hans] hafi fengið endurrit af fyrirtökunni samkvæmt þeirri reglu sem að framan er lýst. Ekki verður séð að yfirlæknir geðdeildar hafi getað fengið staðfestingu á því að beiðni um sjálfræðissviptingu [A] hafi verið lögð fram fyrr en 3. nóvember 1993, enda ber tilvitnun í bréf hans ekki með sér neina ákveðna dagsetningu. Hver það er sem rekur aðstandendur sjúklinga fram og aftur veit ég ekki, en að sjálfsögðu verður sá sem setur fram beiðni um sjálfræðissviptingu að mæta í því máli sem höfðað er hennar vegna eins og hver annar málsaðili." III. Það er grundvallarregla, að enginn maður verður sviptur frelsi sínu með stjórnvaldsákvörðun, nema ákvörðunin eigi sér bæði skýra stoð í lögum og sé í samræmi við lög, enda sé þá gætt þeirrar málsmeðferðar, sem leiðir af lögum og grundvallarreglum stjórnsýsluréttar. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lögræðislaga nr. 68/1984 verður sjálfráða maður ekki vistaður á sjúkrahúsi gegn vilja sínum. Frá þeirri meginreglu eru þó undantekningar í lögum. Þannig er heimilt samkvæmt 2. mgr. 13. gr. lögræðislaga að hefta frelsi manns í tvo sólarhringa, ef hann er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða ofnautn áfengis eða ávana- og fíkniefna. Þá er, samkvæmt 3. mgr. 13. gr. laganna, heimilt að vista mann gegn vilja sínum til meðferðar á sjúkrahúsi, að fengnu samþykki dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, séu fyrir hendi sömu ástæður og greindar eru í 2. mgr. 13. gr. laganna og vistun þykir óhjákvæmileg að mati læknis. Um slíka vistun fer samkvæmt ákvæðum 14.-17. gr. lögræðislaga. Um heimildir til áframhaldandi vistunar sjúklings á sjúkrahúsi er ákvæði í 2. mgr. 19. gr. laganna, sem hljóðar svo: "Vistun lýkur þegar yfirlæknir telur hennar ekki lengur þörf, og eigi síðar en 15 sólarhringum frá því að hún hófst, nema áður hafi verið gerð krafa fyrir dómi um að hann verði sviptur sjálfræði." IV. Niðurstöður álits míns, dags. 17. ágúst 1995, voru eftirfarandi: "1. Í máli þessu liggur fyrir, að A var lagður inn á geðdeild Landspítalans, deild 33A, 2. september 1993 á grundvelli 2. mgr. 13. gr. lögræðislaga nr. 68/1984. Í tilefni af ósk móður A samþykkti dóms- og kirkjumálaráðuneytið 2. september 1993 að hann yrði vistaður áfram til meðferðar á sjúkrahúsinu, sbr. 3. mgr. 13. gr. lögræðislaga. Samkv. gögnum málsins leiddu ýmis atvik til þess misskilnings yfirlæknis á geðdeild Landspítalans, að frá og með 17. september 1993 hafi krafa systur A um sjálfræðissviptingu hans legið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Hafi dóms- og kirkjumálaráðuneytinu borist beiðni um vistun manns á sjúkrahúsi samkvæmt 3. mgr. 13. gr. lögræðislaga nr. 68/1984, skal það, samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laganna, ákveða án óþarfs dráttar, hvort vistun skuli heimiluð eða ekki. Ákvörðun ráðuneytisins skal samkvæmt 2. mgr. 16. gr. vera skrifleg og tilkynnt þeim, sem beiðni ber fram, án tillits til þess hvort beiðnin er samþykkt eða ekki, en sé hún samþykkt, skal hún að auki tilkynnt yfirlækni á hlutaðeigandi stofnun. Í lögræðislögum er á hinn bóginn ekki tekið fram, hvort eða með hvaða hætti skuli staðfesta við viðkomandi yfirlækni, að krafa hafi verið gerð fyrir héraðsdómi um sjálfræðissviptingu manns, sem vistaður hefur verið á sjúkrahúsi, sbr. hins vegar til hliðsjónar 2. mgr. 8. gr. lögræðislaga, sbr. 3. og 4. tölul. 79. gr. laga nr. 92/1991, en þar er kveðið svo á, að dómari skuli senda dóms- og kirkjumálaráðuneytinu endurrit úrskurðar um lögræðissviptingu. Við afgreiðslu á beiðni systur A, um vistun hans hinn 17. september 1993, gætti dóms- og kirkjumálaráðuneytið ekki þess lagaskilyrðis 2. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 68/1984, að tilkynna systur A skriflega, að vistun hans yrði ekki heimiluð á grundvelli 3. mgr. 13. gr. laganna. Var það til þess fallið að valda misskilningi aðstandenda A um raunverulega stöðu málsins, en eins og fram kemur í málinu lá fyrir, að þeir virtust eiga erfitt með að gera sér grein fyrir henni. Svo sem fram kemur í bréfi dómstjórans í Reykjavík til mín 15. ágúst 1994, verður ekki leitt af ákvæðum lögræðislaga nr. 68/1984, að héraðsdómi sé skylt að tilkynna lækni, að beiðni um sjálfræðissviptingu sjúklings, sem hefur verið lagður inn gegn vilja sínum, hafi verið lögð fyrir dómstólinn. Ég lít svo á, að sú framkvæmd sé á engan hátt fullnægjandi eða í samræmi við sjónarmið um réttaröryggi sjúklinga, sem þannig eru vistaðir á sjúkrahúsi, að það hvíli á aðstandendum þeirra að koma því til skila til hlutaðeigandi yfirlæknis, að gerð hafi verið krafa fyrir héraðsdómi um sjálfræðissviptingu. Tryggara væri að setja það skilyrði fyrir áframhaldandi vistun sjúklings á grundvelli 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga, að yfirlækni á viðkomandi deild sjúkrahúss bærist staðfesting frá héraðsdómi um það, að slík krafa hefði verið gerð fyrir dómstólnum. Ég tel einnig rétt, miðað við núverandi framkvæmd, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið taki til athugunar, hvort ekki sé ástæða til að mæla fyrir um þetta atriði í lögræðislögum, þannig að héraðsdómur sendi yfirlækni viðkomandi deildar, þar sem sjúklingurinn er vistaður, staðfestingu á því, að krafa hafi verið gerð fyrir dómstólnum um sjálfræðissviptingu sjúklingsins. 2. Samkvæmt framansögðu var ekki gætt skilyrða 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 68/1984 til þess að halda mætti A í nauðungarvistun á sjúkrahúsi frá 18. september 1993 til 3. nóvember 1993. Samkvæmt 13. og 17. tölul. 3. gr. reglugerðar um Stjórnarráð Íslands, sbr. auglýsingu nr. 96/1969, fer dóms- og kirkjumálaráðuneytið með mál, er varða persónurétt og mannréttindi. Eru það tilmæli mín, að ráðuneytið fylgi eftir ráðstöfunum þeim, sem það hefur þegar gripið til, þannig að mál þau, sem hér hafa verið til umræðu, séu í löglegu horfi. Þá eru það einnig tilmæli mín til ráðuneytisins, að það taki við undirbúnings frumvarps til nýrra lögræðislaga tillit til þeirra sjónarmiða, er ég hef gert grein fyrir í áliti þessu." V. Með bréfi, dags. 4. júlí 1996, tilkynnti dóms- og kirkjumálaráðuneytið mér, að vinna nefndar sem vinnur að endurskoðun lögræðislaganna væri langt komin, og myndi frumvarp til nýrra lögræðislaga verða skilað síðar á þessu ári. Þá var upplýst að í þeim frumvarpsdrögum, sem nú lægju fyrir, hefði verið tekið tillit til þeirra tilmæla, sem fram kæmu í framangreindu áliti.