Málsmeðferð stjórnvalda. Málshraðareglan. Skaðabætur.

(Mál nr. 6056/2010)

A kvartaði yfir drætti á svörum félags- og tryggingamálaráðuneytisins við erindi frá 9. febrúar 2010 þar sem hann óskaði eftir afstöðu ráðuneytisins til mögulegrar skaðabótaskyldu vegna úrskurðar ráðuneytisins frá 28. nóvember 2007, þar sem ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja B ehf. um atvinnuleyfi á grundvelli laga nr. 97/2002 vegna C var staðfest. A óskaði jafnframt eftir rökstuðningi teldi ráðuneytið bótaskyldu ekki til staðar. Í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5188/2007 var talið að úrskurðurinn hefði ekki verið í samræmi við lög. Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 5. október 2010.

Í skýringum félags- og tryggingamálaráðuneytisins til umboðsmanns vegna málsins kom fram að það hefði nú lokið meðferð sinni á málinu. Umboðsmaður lauk því athugun sinni á kvörtuninni en ákvað þó að rita ráðuneytinu bréf og ítreka að gæta yrði að málshraða við meðferð erinda sem því bærust og einnig að tilkynna málsaðila um fyrirsjáanlegar tafir á meðferð erindis. Þá minnti umboðsmaður á mikilvægi þess að taka afstöðu til þess við fyrsta tækifæri þegar erindi bærist í hvaða farveg rétt væri að beina erindinu, s.s. með tilliti til þess hvort málið heyrði undir valdsvið stjórnvaldsins, hvort það væri tækt til efnismeðferðar eða hvort það ætti að framsenda öðru stjórnvaldi á grundvelli 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga. Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til ráðuneytisins að hafa ofangreind atriði í huga í störfum sínum í framtíðinni.