Málsmeðferð stjórnvalda. Málshraðareglan. Börn. Umgengni.

(Mál nr. 6074/2010)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir því að dómsmála- og mannréttindaráðuneytið hefði ekki afgreitt kæru hans frá 27. október 2009. Kæran laut að ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 21. s.m. og varðaði heimild A til að taka dóttur sína, B, með í ferð til X sumarið 2010. Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 8. september 2010.

Í skýringum ráðuneytisins til umboðsmanns vegna málsins kom fram að úrskurðað hefði verið í máli A 25. júní 2010. Af úrskurðinum varð ráðið að málinu hefði verið vísað aftur til nýrrar meðferðar og ákvörðunar sýslumannsins í Reykjavík. Umboðsmaður óskaði því upplýsinga hjá sýslumanni um hvers vænta mætti um framhald málsins hjá embættinu og hvort fyrir lægi hvenær unnt yrði að afgreiða málið. Af skýringum sýslumanns varð ráðið að mál A væri til meðferðar og afgreiðslu hjá embættinu. Af skýringum ráðuneytisins varð enn fremur ekki annað ráðið en að ráðuneytið hefði viðurkennt að afgreiðsla þess á kæru A hefði ekki verið í samræmi við 9. gr. stjórnsýslulaga. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtun A og lauk umfjöllun sinni um kvörtun A með bréfi, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Umboðsmaður ákvað þó að senda dómsmála- og mannréttindaráðherra bréf þar sem hann áréttaði mikilvægi þess að gæta vel að málshraða, ekki síst í málum sambærilegum máli A, þar sem kæruúrræði þjónaði ekki tilgangi sínum enda hafði niðurstaða um deiluefnið ekki þýðingu, tímans vegna, þegar hún loksins fékkst í málið. Þá taldi umboðsmaður það einnig kunna að vera málefnalegt að ráðuneytið setti sér verklagsreglur um röðun mála til afgreiðslu með hliðsjón af því hvernig atvikum væri háttað hverju sinni. Umboðsmaður benti á að þegar erindi berast stjórnvöldum væri mikilvægt að leggja mat á erindið svo fljótt sem unnt væri, s.s. með tilliti til þess hvort málið heyrði undir valdsvið stjórnvaldsins, hvort það væri tækt til efnismeðferðar, hvort það ætti að framsenda öðru stjórnvaldi eða vísa því aftur til nýrrar meðferðar lægra setts stjórnvalds. Það væri og til þess fallið að koma í veg fyrir að meðferð málsins tefðist um lengri tíma hjá stjórnvaldi þegar það væri í raun ekki tækt til efnismeðferðar.