Málsmeðferð stjórnvalda. Málshraðareglan. Matvæli.

(Mál nr. 6105/2010)

A kvartaði yfir bréfaskiptum sínum við heilbrigðisráðuneytið vegna athugasemda sem hann gerði við merkingar og notkun á aspartami. Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 13. september 2010.

Í skýringum heilbrigðisráðuneytisins til umboðsmanns vegna málsins kom fram að málið heyrði undir Matvælastofnun og landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið en ekki heilbrigðisráðuneytið. Í öðru skýringarbréfi heilbrigðisráðuneytisins kom fram að erindið hefði nú verið framsent Matvælastofnun til meðferðar. Umboðsmaður taldi því ekki ástæðu til að taka kvörtun A til frekari meðferðar og lauk því athugun sinni. Í ljósi þess að fimm mánuðir liðu frá því að heilbrigðisráðuneytinu barst erindi A þar til því var komið í réttan farveg hjá viðeigandi stofnun ritaði umboðsmaður ráðuneytinu þó bréf og minnti á málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga og að mikilvægur þáttur þess að tryggja að mál væru afgreidd á eðlilegum hraða væri að stjórnvöld legðu mat á það svo fljótt sem unnt væri í hvaða farveg væri rétt að leggja mál, s.s. með tilliti til þess hvort það heyrði undir annað stjórnvald. Umboðsmaður kom kom því þeirri ábendingu til ráðuneytisins að það hugaði betur að þessu atriði við meðferð mála í framtíðinni.